Vegna illkvittnislegra kjaftasagna á vefsvæði

Morgunblaðinu hefur borist eftirfarandi yfirlýsing frá ökumanni jeppabifreiðar sem lenti í árekstri á Reykjanesbraut síðdegis á fimmtudag. Ökumaðurinn vill koma yfirlýsingunni á framfæri vegna „illgjarns og kvikindislegs bloggs“ á blog.is. Morgunblaðið hefur ákveðið að birta yfirlýsinguna nafnlausa að beiðni sendanda, þar sem, að hans sögn, fram hafa komið hótanir á vefnum í hans garð.

Yfirlýsingin er eftirfarandi:

 „Ég er ökumaður jeppans í slysinu við álverið í Straumsvík. Ég vil koma því á framfæri að EKKI var um glæfraakstur að ræða, þetta var slys og ég einfaldlega gerði mér ekki grein fyrir því hversu mikil hálka var á veginum. Við hjónin vorum á heimleið eftir að hafa farið með hvolpana okkar níu í bólusetningu. Þar sem þetta var fyrsta bílferð hvolpanna og þeir hræddir, þá reyndi ég að aka mjúklega.

Ég hef verið á um 70–80 km hraða þegar bíllinn byrjar að skrika í hálkunni. Ég reyndi að beygja á móti en náði ekki stjórn og næsta sem ég veit er að það er allt fullt af sjúkra- og lögreglubílum í kring og verið er að reyna að ná manninum mínum út úr bílnum. Ég heyri talað um mikil beinbrot og alvarlega áverka. Mér er hjálpað út úr bílnum, yfir í lögreglubíl og þaðan í sjúkrabíl sem flutti mig á sjúkrahús.

Þegar ég hugsa til baka, þá ásaka ég mig fyrir að hafa ekki ekið hægar eða verið í framdrifinu, en við vorum búin að keyra um allan bæinn og einu staðirnir sem ég hafði orðið vör við hálku á voru bílaplön og hliðargötur. Eins og staðan er núna þá liggja tveir menn mjög mikið slasaðir á sjúkrahúsi af mínum völdum, eiginmaður minn og ökumaður hins bílsins.

Það veit sá sem allt veit að illar hugsanir og ljót orð koma ekki til með að hjálpa þeim og ég vil biðja alla að beina bænum sínum til þeirra beggja og biðja fyrir því að þeir nái báðir heilsu aftur. Við getum þakkað Guði fyrir að ekki fór verr og allir komust lifandi frá þessu hræðilega slysi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert