Guðni: Nú skal kennsluborðum kristninnar velt

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði á Alþingi í dag, að allir könnuðust við frásögn Biblíunnar þegar Kristur velti borðum víxlaranna og rak þá út úr helgidómnum.

„Nú skal kennsluborðum kristninnar velt og hún gerð brottræk úr helgidómi íslenskra menntastofnana að undirlagi menntamálaráðherra og ríkisstjórnarmeirihlutans," sagði Guðni.

Hann fór fram á umræðu utan dagskrár á Alþingi um stöðu þjóðkirkju, kristni og kristnifræðslu og gagnrýndi hann m.a. fyrirhugaða breytingu á lögum um grunnskóla um að fella á brott ákvæði um að skólastarf mótist af kristilegu siðgæði.

„Á guð að fara út úr þjóðsöngnum og krossinn úr þjóðfánanum?" spurði Guðni m.a, og sagði, að afstaða framsóknarmanna væri að stíga skuli varlega til jarðar í þessu máli og láta kirkjuna njóta vafans. Meðan ekki væri búið að leita víðtæks samstarfs væri heppilegast að umrætt ákvæði héldist inni í grunnskólalögunum.

Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sagði að ef tengsl skóla og hins kristna menningararfs slitnuðu væri vá fyrir dyrum því þar með hyrfi skilningur á grundvallaratriðum hinnar menningarlegu umgjarðar þjóðarinnar og hins kristna heims almennt.

Sagði Björn að það yrði íslensku þjóðinni til varanlegs tjóns ef hætt yrði að leggja rækt við hinn kristna arf eða drægi úr virðingu fyrir kristni og kirkju. Hins vegar væri álitaefni hverju sinni hvernig haga skuli löggjöf sem treysta eigi grunngildi þjóðarinnar hverju sinni.

Hann sagði að frumvarp til grunnskólalaga tæki mið af þeim sjónarmiðum, sem byggju að baki trúfrelsi en ákvæði laganna bæri ekki að túlka á þann veg, að í þeim fælist andstaða við kristinn boðskap eða andstaða við að hann kæmi inn í skólana.

Björn sagðist ekki myndu beita sér fyrir því að afgreiðslu þessara skólamálafrumvarpa yrði frestað. Þau væru nú komin til Alþingis og Alþingi hefði aldrei brugðist hinum kristna málstað.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði að ekki hefði verið talið stætt á öðru en að leggja til breytingu sem þessa á lögum, m.a. með tilvísun til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu gagnvart Noregi.

Hún sagði að ekki væri verið að úthýsa kristni og kærleiksríkum boðskap hennar úr grunnskólalögum og engin breyting yrði á því að kristinfræði verði áfram mikilvægasti þáttur trúarbragðakennslu. Á hinn bóginn yrði að gera greinarmun á fræðslu og trúboði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert