Bandaríska sendiráðið tjáir sig ekki um einstök mál

Bandaríska sendiráðið í Reykjavík.
Bandaríska sendiráðið í Reykjavík. mbl.is/Sverrir

„Allir þeir sem telja sig ekki hafa hlotið réttláta meðferð við landamæraeftirlit [í Bandaríkjunum] eru hvattir til að bera fram kvörtun á vefsíðu heimavarnaráðuneytisins,“ segir í tilkynningu frá sendiráði Bandaríkjanna á Íslandi síðdegis í dag.

Í tilkynningunni segir að sendiráðið tjái sig ekki um einstök mál, en tilkynningin var send út eftir að mbl.is leitaði viðbragða sendiráðsins við bloggi Erlu Óskar Arnardóttur Lilliendahl, sem sagði frá óblíðum viðtökum er hún hlaut hjá bandarískum landamæravörðum við komuna til New York á sunnudaginn.

Einnig segir í tilkynningunni að bera megi fram kvörtun við bandaríska sendiráðið, sem muni svo koma henni á framfæri við heimavarnaráðuneytið, en það ráðuneyti sjái um eftirlit með þeim sem koma til Bandaríkjanna.

Í tilkynningunni segir:

„Ef íslenskur ríkisborgari ferðast til Bandaríkjanna á undanþágu frá vegabréfsáritun (Visa Waiver Program; þetta prógramm veitir Íslendingum og öðrum þjóðum rétt til að dveljast í Bandaríkjunum í allt að 90 daga án vegabréfsáritunar) og dvelst lengur en 90 daga í landinu, þá á hann ekki kost á að ferðast aftur til Bandaríkjanna á slíkri undanþágu. Þess í stað þarf að sækja um vegabréfsáritun ef maður vill ferðast aftur til Bandaríkjanna.

Þótt manni hafi verið hleypt inn í landið á undanþágu frá vegabréfsáritun (Visa Waiver Program) eftir að hafa dvalist í Bandaríkjunum lengur en leyfilegt var, þá breytir það ekki þeirri staðreynd að lögum samkvæmt var nauðsynlegt hafði verið að sækja um vegabréfsáritun. Heimavarnaráðuneytið, sem sér um eftirlit með þeim sem koma til Bandaríkjanna, er sífellt að uppfæra eftirlitskerfin sín. Því er sá möguleiki fyrir hendi að landamæraverðir hafi ekki getað haft aðgang að þeim upplýsingum sem þeir hafa aðgang að nú.

Yfirleitt stöðva landamæraverðir för fólks sem kemur ólöglega til Bandaríkjanna þar til hægt er að senda það aftur þangað sem það hóf för sína. Þetta getur þýtt að manni sé haldið í gæslu yfir nótt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert