Blátt bann við dónalegum bílnúmerum


„Það er búið að loka á alla möguleika á viðlíka númeri," segir Einar Magnús Magnússon, upplýsingafulltrúi Umferðarstofu. Fréttablaðið Skessuhorn sagði frá því í gær að bílnúmerið GAY 17 hefði fylgt nýjum bíl á Akranesi, en kaupandinn brást skjótt við og skipti númerinu samkynhneigða út fyrir einkanúmerið OFFI.


Númeraplötur með þremur bókstöfum voru nýlega tekin í notkun. Ófeigur Gestsson sagði í samtali við Skessuhorn að hann hefði ákveðið að kaupa einkanúmer til að bjarga málunum, enda meira upp á kvenhöndina. „Hér fyrr á árum var ég kallaður Offi og ákvað að taka það númer þar sem það var laust, " sagði hann.


Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að nokkur númer í viðbót hafa sloppið í gegnum síu Umferðarstofu. 24 stundir hafa heimildir fyrir því að ungri fjölskyldu hafi brugðið í brún þegar glæný og glansandi Toyota heilsaði með bókstöfunum HIV.

Kristinn Einarsson, sölustjóri hjá Toyota, staðfestir það. „Þetta sló mig algjörlega. Við leituðum leiða til að komast undan þessu enda gat fjölskyldan engan veginn sætt sig við þetta," segir hann. „Það var ekki til eins bíll, þannig að við fengum Umferðarstofu til að koma til móts við okkur og það var dregið annað númer fyrir hann. Með einhverju móti gátu þeir fundið númer og eigandinn er mjög sáttur í dag."

Þá segir Kristinn að reynsluakstursbíll hjá Toyota sé með stafina HÝR. „Það á eftir að koma í ljós hvort hann selst þegar ég er hættur að nota hann í reynsluakstur."

mbl.is

Bloggað um fréttina