Um 6.000 umferðalagabrot skráð

Alls voru 5.905 umferðalagabrot skráð hjá lögreglunni um land allt í nóvember sl. Þau voru 3.147 í nóvember á síðasta ári. Hraðakstursbrotin eru áberandi flest eða 3.939 talsins. Er það 167% fleiri brot en yfir sama tímabil í fyrra, að því er segir í nýrri skýrslu frá ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni er farið yfir afbrotatölfræði fyrir nóvembermánuð.  Fram kemur að 1.393 hegningarlagabrot hafi verið skráð í málaskrárkerfi lögreglunnar í síðasta mánuði. Það eru fleiri brot en í nóvember síðastliðin fjögur ár. Þá segir að fíkniefnabrot hafi verið 138, sem sé fækkun frá sama tíma síðustu tvö ár.

Eignaspjöll, áfengislagabrot, líkamsmeiðingar og nytjastuldur voru einnig fleiri í ár en í nóvember 2005 og 2006. Þjófnaðarbrot, fíkniefnabrot og akstur gegn rauðu ljósi voru hins vegar færri en á sama tíma síðastliðin tvö ár.

Flest brot vegna vanrækslu á bílbeltanotkun voru skráð í febrúar, eða 276 brot. Flest brot vegna ölvunaraksturs voru skráð í júní, eða 220 brot.  Flest brot vegna fíkniefnaaksturs voru skráð í ágúst (98), en brotin voru 83 í nóvember.

Hraðamyndavélar hafa áhrif

Frá janúar og fram til júlí var yfir helmingur ökumanna tekinn á meira en 110 km hraða. Lögreglan bendir hinsvegar á að frá júlí virðist hraðinn hins vegar hafa minnkað, en í nóvember voru aðeins 21% þeirra sem stöðvaðir voru að keyra hraðar en 110 km hraða. Lögreglan telur að hraðamyndavélar geti skipt máli í þessu sambandi, en vélarnar í Hvalfirði voru teknar í notkun í júlí.

Hvað hegningarlagabrot varðar þá var fjölgunin hlutfallslega mest á Akureyri, í Borgarnesi, á Hvolsvelli, Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum, miðað við nóvember í fyrra.

Lögreglan segir að fjölgun á umferðarlagabrotum megi að miklu leyti rekja til hraðakstursmyndavélanna í Hvalfirði. Brotin sem þar eru skráð færast á lögregluembættið á Snæfellsnesi.

Þá hefur einnig orðið mikil fjölgun á umferðarlagabrotum á  höfuðborgarsvæðinu.

Fíkniefnabrot voru færri en á sama tíma í fyrra á Eskifirði, höfuðborgarsvæðinu, Selfossi, Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum.

Skýrsluna má finna á vef ríkislögreglustjóra, www.rls.is/tolfraedi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert