Erla Ósk fagnar niðurstöðunni

Erla Ósk Arnardóttir.
Erla Ósk Arnardóttir. mbl.is/Golli

Erla Ósk Arnardóttir Lillendahl, sem var beitt harðræði við komuna til New York nýverið, kveðst vera afar ánægð með niðurstöðuna sem fengist hefur í máli hennar. Hún segist ekki hafa tekið neina ákvörðun um framhaldið, t.d. hvort hún muni höfða mál á hendur bandarískum yfirvöldum.

„Ég hefði í raun ekki getað ímyndað mér betri útkomu úr þessu, þetta er í raun meira en ég bjóst við. Ég er bara raunsæ,“ sagði hún. Stewart Baker, aðstoðarráðherra stefnumála hjá bandaríska heimavarnarráðuneytinu, sendi í dag bréf til íslenska utanríkisráðuneytisins þar sem fram kemur að meðferðin á Erlu Ósk sé hörmuð.

Þá kveðst hún vera sérstaklega ánægð með það að bandaríska heimavarnarráðuneytið ætli sér að endurskoða starfsreglur sínar varðandi hvernig sé tekið á móti erlendum ferðamönnum.

„Þeir viðurkenna ekki mistök sem slík, en þeim finnst leitt að þarna hafi kannski ekki verið gætt meðalhófs,“ segir Erla Ósk og bætir því við að hún hafi ekki búist við fá afsökunarbeiðni frá bandarískum yfirvöldum.

Lögfræðingar, bæði bandarískir og íslenskir, sem hafa reynslu af bandaríska dómskerfinu, hafa verið í sambandi við Erlu Ósk.  Hún segir hinsvegar að engar ákvarðanir hafi verið teknar varðandi það hvort hún muni leita réttar síns og höfða dómsmál. Málið sé í skoðun.

„Ég er rosalega ánægð með það að geta upplýst um þetta, og jafnvel komið í veg fyrir að fleiri lendi í svipuðum aðstæðum. Ég tala nú ekki um þá sem eru t.d. að ferðast með börn,“ segir hún.

Þá lýsti hún yfir ánægju með vinnubrögð íslenska utanríkisráðuneytisins.

Ekki náðist í Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert