Líkamsárásir í miðborginni

Tvær líkamsárásir í miðborg Reykjavíkur voru tilkynntar til lögreglunnar í nótt. Í öðru tilvikinu beittu árásarmenn hnífi en í hinu hlaut fórnarlambið nef- og kinnbeinsbrot. Þá hafa fjögur innbrot, víðsvegar um borgina, verið tilkynnt í nótt.

Klukkan tvö í nótt barst tilkynning um að ráðist hefði verið á mann með hnífi í Bergstaðastræti. Hann hlaut ekki alvarleg sár, en nokkra grunna skurði. Hann var fluttur á sjúkrahús en fékk fljótlega að fara þaðan. Ekki er vitað hverjir réðust á hann og þekktir maðurinn þá ekki. Málið er í rannsókn.

Skömmu síðar kom til átaka milli nokkurra manna á horni Bankastrætis og Ingólfsstrætis. Einn var fluttur á sjúkrahús og kom þá í ljós að hann var með brotið nef og kinnbein og nokkrar tennur höfðu losnað. Ekki er heldur vitað hverjir réðust á hann og hefur hann ekki viljað tjá sig um málið.

Þá greinir lögreglan frá því að í nótt hafi verið brotist inn í heimahús á fjórum stöðum víðsvegar um borgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert