Lykt af braski í borginni

Húsin umdeildu við Baldursgötu.
Húsin umdeildu við Baldursgötu. mbl.is/Kristinn

Hlutafélagið Baldursgata ehf. í Kópavogi keypti tvö hús við Baldursgötu árið 2005 og fékk til þess fyrirgreiðslu hjá Sparisjóðnum BYR í Kópavogi. Þrátt fyrir að annað húsið, Baldursgata 32, væri dæmt ónýtt vegna veggjatítlu fékk hlutafélagið viðbótarlán hjá sparisjóðnum upp á 28 milljónir króna.

Í september veitti sparisjóðurinn svo hlutafélaginu viðbótarlán með veði í húsinu upp á 12 milljónir króna. Húsið er því veðsett hjá sparisjóðnum fyrir fjörutíu milljónir króna, en brunabótamat þess er 20,4 milljónir og fasteignamat 28,5 milljónir.

Sparisjóðurinn BYR hefur einnig veitt hlutafélaginu lán með veði í hinu húsinu, Baldursgötu 34, upp á 36 milljónir. Brunabótamat þess húss er 13,9 milljónir og fasteignamat 24,9 milljónir. Því á sparisjóðurinn BYR veðrétt í húsunum tveimur upp á tæpar áttatíu milljónir króna.

„Það vekur athygli að veðrétturinn í þessum húsum er miklu hærri en verðmæti fasteignanna. Sparisjóðurinn á því mikilla hagsmuna að gæta þarna því verktakarnir eru búnir að taka lán upp á tugi milljóna króna og ætla sér greinilega einhverja hluti. Það liggur alveg fyrir að deiliskipulagið fyrir reitinn var unnið að frumkvæði þessara verktaka," segir Helga Lára Þorsteinsdóttir, íbúi á umræddum Baldursgötureit, en nú er til kynningar tillaga að deiliskipulagi fyrir reitinn en íbúar hafa gagnrýnt að ekki hafi verið haft samráð við þá við gerð skipulagsins og að frestur þeirra til að andmæla sé of skammur.

Baldursgata 32 hefur verið yfirgefið hús í tvö ár að sögn Helgu Láru og hefur útigangsfólk hafst þar við.

„Mér blöskrar að borgin skuli vera að hampa mönnum sem ganga svona um eignirnar sínar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert