Meirihlutinn vill ný hús við Laugaveg

Húsin við Laugaveg 4 og 6.
Húsin við Laugaveg 4 og 6. mbl.is/Friðrik

Meirihluti þeirra, sem tóku þátt í skoðanakönnun Fréttablaðsins, vill að reist verði ný hús við Laugaveg 4 og 6. Af þeim sem afstöðu tóku vildu 41,5% að byggð verði ný hús, sem taki mið af núverandi götumynd, 30,9% vill að byggt verði samkvæmt núverandi teikningum og 27,6% vilja friða húsin eins og Húsafriðunarnefnd hefur nú lagt til.

Úrtakið í könnuninni var 600 manns í Reykjavík og könnunin var gerð í gær. 79,8% tóku afstöðu en spurt var: Hvað telur þú að gera eigi við húsin að Laugavegi 4 og 6. Svarmöguleikar voru: a) friða húsin, b) byggja samkvæmt núverandi teikningum, c) byggja samkvæmt nýjum teikningum sem taka betur mið af núverandi götumynd.

mbl.is