Myndum fara að tillögunni

Laugavegur 4–6.
Laugavegur 4–6. mbl.is/Frikki

„Það væri alveg fordæmalaust að ganga gegn tillögu Húsafriðunarnefndar,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, eftir fund í borgarráði í gær, aðspurður hvaða umsögn borgaryfirvöld hygðust gefa menntamálaráðherra í undirbúningi að ákvörðun hennar um friðun húsanna við Laugaveg 4 og 6. „Ég hef gengið út frá því, og það er skoðun hins nýja meirihluta, að við myndum fara að tillögu Húsafriðunarnefndar í umsögn okkar,“ sagði Dagur.

Borgarráð fór yfir stöðu málsins á fundinum, en það hefur ekki komið saman síðan ákveðið var að ná samningum við lóðareigendur um fjórtán daga frest til að flytja húsin. Farið var að sögn yfir þær ótalmörgu spurningar sem vaknað hafa síðan. Var meðal annars leitað álits borgarlögmanns á lögfræðilegum spurningum sem ekki er fullsvarað, en Dagur kvað Húsafriðunarlög býsna skýr og vísa á ríkissjóð þegar kæmi að mögulegri skaðabótaábyrgð.

Ríkið ekki skaðabótaskylt

Sagði borgarstjóri að hvort sem húsin yrðu friðuð á sínum stað, eða heimilað að varðveita þau annars staðar, þyrfti líklega hvort sem er að færa þau tímabundið. „Við erum að fara yfir hvort verið gæti skynsamleg varúðarráðstöfun að halda okkar striki og flytja þau. Ég held að málið snúist í raun ekki um bótakröfur, heldur verklag við endurbætur gamalla húsa.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að hún gæti ekki tekið efnislega afstöðu til tillögu Húsafriðunarnefndar að svo stöddu. „Þetta mál er ekki ennþá komið formlega á borð til mín. Það er ljóst að Húsafriðunarnefnd mun veita viðkomandi aðilum, borginni og eigendum húsanna, tækifæri til að veita ákveðin andmæli. Án þess að ég tjái mig um efnisatriði málsins hef ég ekki leynt því að ég tel afar mikilvægt að vita afstöðu borgarinnar til friðunar. Þetta snýst ekki aðeins um friðun húsanna heldur hvernig borgaryfirvöld vilji að götumynd Laugavegar verði,“ sagði Þorgerður Katrín.

„Ég er hins vegar ekki sammála borgarstjóra hvað það varðar að ríkið sé skaðabótaskylt í þessu máli og þess vegna tel ég mikilvægt að vita hver afstaða borgarinnar er hvað þetta varðar. Það er eðlilegt að menn dragi fram sjónarmið og afstöðu sveitarfélaga í jafn mikilvægum málum og húsafriðun.“

Í hnotskurn
» Formaður Húsafriðunarnefndar hefur gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir seinagang og sinnuleysi í málinu. Nefndin hafi ekki getað tekið ákvörðun nema vita hvað ætti að koma í stað húsanna.
» Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði að sér fyndist gagnrýnin ekki fyllilega sanngjörn, enda hefði nefndin verið höfð með í ráðum á öllum stigum málsins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert