Dómur vegna líkamsárásar þyngdur

Hæstiréttur hefur þyngt dóm yfir rúmlega tvítugum karlmanni, sem fundinn var sekur um að hafa slegið annan mann ítrekað með hafnaboltakylfu í höfuð og líkama og einnig slegið hann hnefahögg í andlitið. Héraðsdómur Reykjaness dæmdi manninn í 15 mánaða fangelsi en Hæstiréttur þyngdi dóminn í 18 mánuði.

Árásarmaðurinn ruddist inn á heimili föður mannsins, sem fyrir árásinni varð. Við yfirheyrslur fyrir dómi játaði maðurinn brot sitt afdráttarlaust og sagðist ekki geta réttlætt gerðir sínar. Hann hefði verið í mikilli neyslu á þessum tíma og allt verið í móðu. Hann taldi sig þó eiga eitthvað sökótt við manninn  sem hann réðist á.

Hæstiréttur segir að maðurinn hafi með brotinu rofið skilorð reynslulausnar en hann átti 330 daga óafplánaða af eldri dómi. Fyrir dóminn voru lögð vottorð þar sem fram kemur að frá því að maðurinn framdi umrætt brot hafi hann tekið sig á, stundi vinnu og hafi haldið sig frá fíkniefnum um nokkurt skeið, auk þess að hafa stundað forvarnarstörf gegn fíkniefnaneyslu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert