Taka þarf af skarið með Sundabraut

Dagur B. Eggertsson.
Dagur B. Eggertsson. mbl.is/Brynjar Gauti

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, segir að það sé mikilvægt að á næstu vikum verði að taka af skarið um leiðaval fyrir lagningu Sundabrautar, fjármögnun og tímasetningu framkvæmda nákvæmar en gert hefur verið. Því þessi óvissa sem hefur verið undanfarin misseri er ekki góð, segir borgarstjóri.

Lítill hljómgrunnur með eyjaleið Vegagerðarinnar

„Nú liggja fyrir jarðfræðirannsóknir og ákveðnir áfangar í umhverfismati sem benda til þess að jarðgangaleiðin sé fær. Þegar kallað hefur verið eftir í umræðunni undanfarna daga að Reykjavíkurborg segi skýrt hvaða leið við teljum besta fyrir íbúanna, umferðina, höfuðborgarsvæðið og landið allt þá höfum við komist að þeirri niðurstöðu eftir þá miklu vinnu sem hefur farið fram undanfarin ár að jarðgangakosturinn sé langbestur," segir Dagur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Dagur segir að það sé nokkuð nýtt hvað Vegagerðin leggur þunga áherslu á að svokölluð eyjaleið verði ofan á. Sú leið var til skoðunar í samráðinu og fékk satt skal segja ekki mikinn hljómgrunn. Var hún eiginlega höfð með í umhverfismatinu fyrir orð Vegagerðarinnar, segir Dagur.

„Þannig að það út af fyrir sig kemur nokkuð á óvart en er eitthvað sem þarf að ræða sig í gegnum á næstu dögum og vikum því að mér sýnast öll rök hníga að því að ytri leiðin í göngum sé betri fyrir dreifingu umferðar, umhverfið, íbúana og þar með fyrir í raun land og þjóð í heild," segir Dagur.

Borgarfulltrúar samstíga um nokkurt skeið

Dagur segir að fulltrúar í borgarráði hafi í raun verið sammála um hvaða leið skyldi verða fyrir valinu um nokkurt skeið og þar fari áherslur borgaryfirvalda við áherslur íbúasamtaka sem hafa farið geysilega vel ofan í þessi mál, að sögn Dags og af því sem hann telur faglega og með opnum huga.

„Þannig að ég held að þetta mál hafi verið geysilega vel undirbúið og til fyrirmyndar. Það ætti því að vera hægt að fara hratt og fast í þetta þegar lykilspurningum um fjármögnun, leiðaval og fleira verður svarað," segir borgarstjóri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert