Farþegi fékk högg þegar sæti losnaði í flugvél

DASH 8 vél í eigu Flugfélags Íslands.
DASH 8 vél í eigu Flugfélags Íslands.

Sæti í Dash 8-100 flugvél Flugfélags Íslands losnaði þegar vélin fékk á sig vindhnút í aðflugi á Egilsstöðum í dag. Segir félagið að farþeginn, sem í sætinu sat, hafi fengið nokkuð högg á sig. Málið verður rannsakað að sögn flugfélagsins.

Flugvélin fór frá Reykjavík kl. 10:40 í dag með 23 farþega um borð og lenti á Egilsstöðum um kl. 11:45. Flugstjóri vélarinnar fór yfir atvikið með farþegum eftir lendingu og einnig hefur verið haft samband við farþegana eða fulltrúa þeirra til að fara frekar yfir þetta atvik.

Fram kemur á heimasíðu Flugfélags Íslands, að töluverð hreyfing hafi orðið á vélinni og farþegum var eðlilega nokkuð brugðið.

Flugfélagið segir, að ekki sé eðlilegt að sæti komist á hreyfingu þó svo um ókyrrð sé að ræða og verði það rannsakað sérstaklega hvernig það kom til í þessu tilfelli en allar líkur benda til þess að sætið hafi ekki verið fest með viðeigandi hætti niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert