Bobby Fischer sóttist eftir einvígi við Anand

Bobby Fischer vildi í fyrra tefla einvígi við Vishy Anand, núverandi heimsmeistara í skák, einnig var hann fús að tefla við Garrí Kasparov. Helgi Ólafsson stórmeistari hafði milligöngu í málinu og tók Anand vel í að tefla við Fischer sem vildi að notast væri við tilhögun sem hann fann upp, Fischerrandom en þá er mönnunum raðað upp að hluta til af handahófi í byrjun skákar til að gera taflið erfiðara.

Að sögn Helga nýtur Fischerrandom, öðru nafni Chess 960, vaxandi hylli, einkum í Þýskalandi, og mun Anand oft hafa teflt á skákmótum með þessari uppröðun. Fram kemur í tölvuskeytum frá því í fyrra milli Helga og Anands að Fischer var með vel mótaðar hugmyndir um einvígið. Hann setti fram í samráði við Helga 18 tillögur um tilhögun þess, teflt yrði í Indlandi og atburðurinn fjármagnaður af þarlendum fjármálamönnum. En einvígið yrði sýnt á netinu og hægt að kaupa þar aðgang að skákunum.

Helgi segir að ekki hafi verið gerlegt fyrir Kasparov að taka boðinu. Hann hafi þegar haft öðrum hnöppum að hneppa enda orðinn umsvifamikill stjórnmálamaður í Rússlandi. „Anand bar fyrir sig tímaleysi vegna þátttöku í mótum en segir í einu skeytinu að það myndi vera heiður fyrir sig að tefla við Fischer en hann gæti ekki tryggt að öllum skilyrðunum yrði fullnægt.“

Fischer og Anand þekktust og var hinn fyrrnefndi óánægður með að ekki skyldi þokast í málinu. Hann sagði við Helga: „Ég verð að ná einni keppni í viðbót.“

Í hnotskurn
» Bobby Fischer varð heimsmeistari í Reykjavík 1972 er hann tefldi við Sovétmanninn Borís Spasskí. Einvígið vakti geysilega athygli um allan heim og skák varð skyndilega vinsæl í Bandaríkjunum.
» Titillinn var tekinn af Fischer árið 1975 þar sem ekki tókst að koma á einvígi milli hans og áskorandans, Anatólís Karpovs, vegna þess hve Bandaríkjamaðurinn setti mörg og flókin skilyrði.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert