Engir eftirmálar af útför Fischers

Gröf Fischers í Laugardælakirkjugarði.
Gröf Fischers í Laugardælakirkjugarði. mbl.is/Guðmundur Karl

Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sóknarprestur í Hraungerðishreppi, segir að sér hafi brugðið talsvert við það að koma að nýtekinni gröf í Laugardælakirkjugarði, og að það hafi verið sérstök lífsreynsla, ekki síst með hliðsjón af því að það var skákmeistarinn Bobby Fischer sem þar hafði verið jarðaður.

Útförin fór fram í gærmorgun að sóknarprestinum forspurðum og frétti hann fyrst af henni í samtali við fjölmiðla.

Kristinn segist hafa rætt við Garðar Sverrisson, vin Fischers sem sá um jarðarförina, og að hann skilji þá sérstöku aðstöðu sem aðstandendur Fischers hafi verið í. Hann segir enga eftirmála verða af því.

Mikið var fjallað um fyrirhugaða útför Fischers í fjölmiðlum og var meðal annars rætt um að skákmeistarinn yrði borinn til grafar í þjóðargrafreitnum á Þingvöllum.

„Ég get ekki sagt annað en að ég sé stoltur af því að Lægardælakirkjugarður hafi komið til greina næst á eftir þjóðargrafreitnum", segir Kristinn.

Þá segir Kristinn að það sé hlutverk biskups að leiðbeina um hvernig farið skuli að svona málum og hann trúi ekki öðru en að það hann muni gera.

Ólafur Jóhannsson, formaður prestafélagsins, segir það skýrt að að gert sé ráð fyrir góðu samkomulagi milli sóknarnefndar og prests við allar ákvarðanir um helgihald. Hann segir klaufalegt að ekki hafi verið haft samband við sóknarprestinn í Hraungerðishreppi áður en Fischer var jarðsettur í Laugardælakirkjugarði.

Í starfsreglum um kirkjur og safnaðarheimili frá árinu 2000 segir að ábyrgð á helgihaldi í kirkju og öðru því sem þar fer fram sé á hendi hlutaðeigandi sóknarprests í samráði við sóknarnefnd.

Ólafur segir að í lögumnum sé almennt gert ráð fyrir góðu samkomulagi milli sóknarnefndar og prests um alla viðburði í kirkjunni.

„Þetta þýðir í raun að presturinn hefur síðasta orðið, og gildir einnig um athafnir á vegum annarra trúfélaga."

Segir Ólafur alla sem að málinu koma skilja að það hafi legið á að ljúka útförinni og að vilji hafi verið til að gera þetta í kirkju, en áður en of mikil athygli beindist að málinu. Hann segir engu að síður hafa verið klaufalegt að ekki hafi verið haft samband við Kristin.

mbl.is

Bloggað um fréttina