Hávær mótmæli í Ráðhúsinu

Fjölmargir áhorfendur eru í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Fjölmargir áhorfendur eru í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Kristinn

Hávær mótmæli voru á áhorfendapöllum Ráðhússins áður en borgartjórnarfundur hófst þar klukkaun 12:15. Fólk hrópaði m.a: Hættið við; stöðvið ruglið í Reykjavík; Reykjavík á betra skilið og fleiri slagorð. Þá púaði fólkið þegar borin var upp tillaga um að kjósa nýjan forseta borgarstjórnar og varaforseta.

Ólafur F. Magnússon, fráfarandi forseti borgarstjórnar og tilvonandi borgarstjóri, bað fólk að haga sér vel svo ekki þyrfti að loka fundinum. Var tillagan um kosningu síðan samþykkt með 8 atkvæðum gegn 7.

Dagur B. Eggertsson, fráfarandi borgarstjóri, sagði að sér þætti vænt um hve margir væru komnir á pallana en bað áhorfendur um að sýna stillingu því ella væri ætlunin að rýma salinn og þá yrðu færri en ella vitni að því sem fram ætti að fara á fundinum.

Síðan fór kosning forseta borgarstjórnar fram í sæmilegum friði og var Hanna Birna Kristjánsdóttir kjörin með 8 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og F-lista en sjö atkvæðaseðlar voru auðir. Hluti áhorfenda klappaði en hluti púaði.

Hanna Birna sagði, að hún myndi neyðast til þess að gera hlé á fundinum og rýma salinn ef frekari ólæti yrðu í salnum en henni væri það skylt samkvæmt fundarsköpum borgarstjórnar.

Dagur B. Eggertsson var síðan kjörinn 1. varaforseti borgarstjórnar til eins árs með 14 atkvæðum en Svandís Svavarsdóttir fékk 1 atkvæði. Gísli Marteinn Baldursson var síðan kjörinn 2. varaforseti borgarstjórnar með 8 atkvæðum.
mbl.is
Loka