Kennarar fagna frumvarpi um kennaramenntun

Kennarar á kjaramálaráðstefnu.
Kennarar á kjaramálaráðstefnu. mbl.is/Frikki

Kennarasamband Íslands segist taka heilshugar undir að tímabært sé að efla kennaramenntun og gera meistaragráðu eða sambærileg námslok að skilyrði fyrir veitingu leyfisbréfa kennara við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Þetta kemur fram í umsögn KÍ til Alþingis um lagafrumvarp um  menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda á þessum þremur skólastigum.

„Menntunarstigi allra kennara verður ekki breytt á einni nóttu. Hér er verið að horfa áratugi fram í tímann" segir Eiríkur Jónsson formaður Kennarasambandsins, í tilkynningu.   

Segir Kennarasambandið, að með því að gera sömu kröfur um menntun kennara í leik-, grunn- og framhaldsskólum skipi Íslendingar sér í röð framsýnustu þjóða í menntunarmálum kennara. Frumvarpið beri vitni um skilning á mikilvægi þess að vel sé vandað til uppeldis og kennslu yngstu barnanna og fagnar sambandið sérstaklega ákvæðum frumvarpsins um lögverndun starfsheitis kennara og skólastjórnenda í leikskólum.

Þá segir KÍ, að erfiðar aðstæður í skólum á leik- og grunnskólastigi vegna manneklu og óánægju kennara með kjör sín megi ekki spilla fyrir því mikla framfaramáli sem efling kennaramenntunar sé. Það sé umhugsunarefni að á sama tíma og almennt samkomulag virðist vera um að auka þurfi kröfur um menntun kennara fjölgi stöðugildum í grunnskólum, sem séu á hendi kennara án kennsluréttinda og leikskólakennurum, fjölgi ekki sem skyldi í leikskólum. Yfirvöld í landinu, jafnt fagráðuneyti sem rekstraraðilar skólanna, þurfi að snúa þessari óheillaþróun við þannig að kennarastarfið sé aðlaðandi kostur fyrir vel menntað og hæfileikaríkt fólk á öllum aldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert