Sæmilegar aðstæður fyrir göng

Unnið að jarðfræðirannsóknum í Gufunesi. Myndin er tekin af vef ...
Unnið að jarðfræðirannsóknum í Gufunesi. Myndin er tekin af vef ÍSOR.

Sérfræðingar Íslenskra orkurannsókna (ÍSOR) unnu í sumar að skipulögðum jarðfræðirannsóknum á því svæði, þar sem Sundagöng kunna að verða boruð. Niðurstöðurnar voru þær að aðstæður til jarðgangagerðar teljast sæmilegar, bergið er víðast allþétt og engin umtalsverð leka- eða sprungusvæði komu í ljós.

Aðstæður eru þó taldar heldur lakari en í Hvalfjarðargöngum, þar sem ÍSOR annaðist einnig jarðfræðirannsóknir.

Fram kemur á heimasíðu ÍSOR, að gerðar voru boranir, hita- og vatnsborðsmælingar, kjarnagreining, hljóðhraðamælingar,  bylgjubrotsmælingar og berggæðamat. Jarðgangaleiðin, sem rannsökuð var, liggur frá Laugarnestanga og inn undir Laugarnes og Laugarás upp af Sundahöfn, sveigir svo að ströndinni við Klepp, þverar Elliðavog og endar í Gufunesi.

Fram kemur á heimasíðu ÍSOR, að um sé að ræða heilmikið gangakerfi neðanjarðar, verði af framkvæmdinni. Gert er ráð fyrir að tvenn hliðargöng komi til yfirborðs í grennd við Holtagarða og við Klettagarða. Þau munu liggja á 60-70 metra dýpi undir voginum. Þetta verða tveggja akreina göng með einstefnu í hvorum hluta fyrir sig.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti nýlega að Sundabraut verði lögð í göngum frá Laugarnesi í Gufunes, með eðlilegum fyrirvara um niðurstöður umhverfismats. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um fyrirkomulag brautarinnar liggur ekki enn fyrir en framkvæmdin um Sundagöng er nú í umhverfismati.

Heimasíða ÍSOR

mbl.is