Áfram kalt á lánamarkaði

Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri, telur að áfram verði kalt á lánamarkaði hérlendis, næstu mánuði. Hann segir hins vegar að fréttir um að Kaupþing hafi hætt við yfirtöku á hollenska bankanum NIBC séu jákvæðar fyrir íslenska bankakerfið og efnahagslífið í heild sinni.

Fjármögnunin á hollenska bankanum var mjög umfangsmikil og hefði Kaupþing þurft að fara í skuldabréfa- og hlutabréfaútgáfu, sem stærstu hluthafar hefðu þurft að standa á bak við, ef af yfirtökunni hefði orðið. 

Þar sem þess þarf nú ekki mun það að einhverju leyti liðka fyrir útlánum, sem hafa verið við frostmark hjá bönkunum að undanförnu. Jafet telur þó að þeir muni fara varlega, þar til kjör þeirra hafa batnað enn meir og vaxtaálag lækkað – og því býst hann við erfitt verði að sækja lán næstu mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert