Ekki reynt að ræna barni

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lokið rannsókn á máli sem upp kom við Laugarnesskóla í byrjun janúar þar sem talið var að reynt hefði verið að nema á brott 8 ára stúlku sem er nemandi í skólanum. Lögreglan hefur ákveðið að aðhafast ekki frekar í málinu þar sem sýnt þykir að atburðurinn hafi ekki átt sér stað.

Málið vakti mikinn óhug í hverfinu en stúlkan sagði þrjá menn á grænum bíl hafa reynt að ná sér upp í bílinn án árangurs.

Aðgerðir halda áfram

„Við tókum málið mjög alvarlega og fórum í ákveðnar aðgerðir og þær halda áfram,“ segir Sigríður Heiða Bragadóttir, skólastjóri Laugarnesskóla. „Við endurskoðuðum útivaktina, sáum til þess að lýsing á skólalóðinni yrði bætt, athuguðum með að setja eftirlitsmyndavélar við skólann, endurskoðuðum forvarnarstefnuna okkar og hvernig við bregðumst við þegar mál koma upp og ræddum við lögregluna um löggæslu,“ segir hún. Öllu þessu hefur þegar verið hrint í framkvæmd.

Sigríður segir alla foreldra hafa verið látna vita af niðurstöðunni en segir mikilvægt að vera alltaf vakandi, forvarnir byrji heima.

Brúðuleikhús og ráðleggingar

„Við leituðum ráðgjafar hjá Blátt áfram þegar þetta kom upp og þær tóku saman ráðleggingar ætlaðar foreldrum, sem við ætlum að setja á heimasíðu skólans, auk þess sem brúðuleikhús Blátt áfram verður sýnt árlega,“ segir Sigríður. Hún segir þetta mál sannarlega vekja fólk til umhugsunar. Það hafi verið skellur, en skólinn hafi reynt að vinna úr því með jákvæðum hætti.

Hvað vantar upp á?

Í hnotskurn
Þann 3. janúar var talið að þrír menn hefðu reynt að ræna átta ára stúlku. Hún lýsti bílnum þeirra en allar vísbendingar voru mjög óljósar. Foreldrum var ekki gert viðvart um atburðinn strax.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert