Undir Vilhjálmi komið hver verður næsti borgarstjóri

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Árvakur/Brynjar Gauti

Óvissa ríkir um hver muni setjast í borgarstjórastólinn þann 22. mars á næsta ári eftir að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson tilkynnti á mánudag að hann ætlaði að sjá til hvort hann myndi setjast í hann.

Undir Vilhjálmi komið

„Vilhjálmur ræður því. Hann var kjörinn oddviti í einu stærsta prófkjöri flokksins,“ segir Marta Guðjónsdóttir, formaður Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík og varaborgarfulltrúi, aðspurð hvort Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, muni setjast aftur í borgarstjórastólinn. „Það er ekki komið að þeirri ákvörðun en ég styð auðvitað þá ákvörðun sem hann tekur.“

Þarf að njóta trausts

Jórunn Frímannsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir mestu skipta að vinnufriður skapist í borgarstjórn. „Vilhjálmur þarf stuðning okkar borgarfulltrúanna til þess að verða borgarstjóri. Til þess að við styðjum hann þurfum við að finna fyrir því að hann njóti trausts borgarbúa. Ef það verður ekki þá þarf að sjálfsögðu að skoða hver tekur við,“ segir Jórunn, aðspurð hvort Vilhjálmur verði aftur borgarstjóri. „Mér finnst ekki tímabært að tala um arftaka. Hanna Birna fékk glimrandi kosningu í 2. sæti og mundi ég því telja eðlilegt að hún tæki við, ég sé ekkert annað í stöðunni.“

„Las hann ekki skýrsluna?“

Vilhjálmur talaði um það á blaðamannafundi á mánudag að 23 milljarða króna tilboð í REI hefði legið fyrir í haust áður en fyrsti meirihlutinn sprakk. Ef tilboðinu, sem var frá Glitni, hefði verið tekið þá „hefðum við verið laus frá þessu,“ sagði Vilhjálmur.

Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir þetta sérkennilega upprifjun hjá Vilhjálmi og að ummæli hans sýni að hann vilji helst hverfa aftur til byrjunar októbermánaðar og selja REI.

„Ég er farinn að halda að Vilhjálmur hafi ekki lesið REI-skýrsluna fyrst hann er farinn að tala um það enn og aftur að selja REI, þegar það er þverpólitísk samstaða um það í borgarstjórn Reykjavíkur að selja fyrirtækið ekki. Þetta er sami vandi og við framsóknarmenn áttum við að glíma í fyrsta meirihlutanum þegar sjálfstæðismenn voru búnir að taka einhliða ákvörðun um að selja REI, sem við vorum ekki tilbúnir í. Sú niðurstaða sem kom fram í REI-skýrslunni er því mikill sigur fyrir okkur.“

Í hnotskurn
Endurheimti Vilhjálmur traust borgarbúa er líklegt að hann setjist aftur í borgarstjóratólinn. Ef ekki er talað um tvo aðra kosti. 20 manna borgarstjórnarflokkur kýs nýjan borgarstjóra úr sínum hópi. Snemmbúið prófkjör þar sem nýr borgarstjóri og framtíðarleiðtogi verði kosinn. Með þessu yrði opnuð leið fyrir nýtt fólk inn í borgarstjórn.
mbl.is

Bloggað um fréttina