Undiralda útlendingahaturs

Redouane Naoui og Gunnar Hrafn Jónsson Café Victor
Redouane Naoui og Gunnar Hrafn Jónsson Café Victor Eggert Jóhannesson

Redouane Naoui er 36 ára gamall karlmaður frá Marokkó, sem hefur verið búsettur á Íslandi í þrjú og hálft ár. Hann segist hafa orðið fyrir tveimur alvarlegum líkamsárásum hér á landi á þeim tíma vegna útlendingahaturs.

Fyrra tilvikið átti sér stað í miðbæ Reykjavíkur í janúarmánuði árið 2006 þegar þrír karlmenn á þrítugsaldri réðust á hann og gengu í skrokk á honum á Laugaveginum.

„Þeir stoppuðu mig á Laugaveginum og skipuðu mér að tala íslensku. Þegar ég svaraði þeim á ensku létu þeir höggin dynja á mér þar til lögreglan var kölluð til og handtók þá.“

Redouane kinbeinsbrotnaði í árásinni og tennur í honum brotnuðu, en hann kærði atvikið til lögreglu og að hans sögn hlutu þremenningarnir dóm vegna málsins.

Hann var svo stunginn með hnífi við Hafnarstræti um síðastliðna helgi. Tveir karlmenn réðust á hann þar sem hann var staddur ásamt íslenskri vinkonu sinni að bíða eftir leigubíl.

Bloggað um árásina

Meðleigjandi hans, Gunnar Hrafn Jónsson, skrifaði um árásina á bloggsíðu sinni undir fyrirsögninni: „Morðtilræði og hatursglæpur,“ og að hans sögn létu viðbrögðin ekki á sér standa. „Flestir hafa látið í ljós samúð sína en svo hafa borist nokkrar athugasemdir þar sem honum er kennt um árásina því arabar eigi ekki heima á Íslandi, en enginn hefur þorað að skrifa þær undir nafni,“ segir Gunnar Hrafn.

„Það virðist vera einhvers konar undiralda í gangi í samfélaginu sem elur á útlendingahatri. Þessi umræða hefur að minnsta kosti verið áberandi á netinu í þó nokkurn tíma. Þetta er fámennur hópur held ég, en hann er orðinn ansi hávær,“ segir Gunnar.

Redouane fluttist hingað til lands á sínum tíma frá Spáni ásamt íslenskri kærustu sinni sem hann síðan giftist og eignaðist barn með, en þau eru skilin í dag. Hann segist ítrekað hafa orðið fyrir aðkasti vegna kynþáttar síns hér á landi.

„Það er mjög erfitt að vera útlendingur á Íslandi. Ákveðinn hluti Íslendinga vill ekki hafa okkur hérna og þegar maður fer niður í bæ er oft hrópað að manni helvítis útlendingur og eitthvað í þeim dúr. Þá lendir maður oft í því að manni sé hrint og sýnd önnur lítilsvirðing.“

Færi ef hann gæti

Vegna barns síns hér á landi segist Redouane ekki geta hugsað sér að flytja frá Íslandi. Hann segir að væri málum háttað öðruvísi myndi hann ekki hika við að flytja úr landi. „Ég myndi flytja eins og skot ef ég gæti því hatrið hér í garð útlendinga eykst bara dag frá degi.“
Í hnotskurn
Á Íslandi bjuggu 95 einstaklingar með ríkisfang frá Marokkó árið 2006. Í fyrra hafði þeim fækkað úr 95 niður í níutíu. Langflestir þeirra sem hér bjuggu í fyrra og voru með erlent ríkisfang voru frá Póllandi eða um 8.400 manns.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert