Áframhald Breiðavíkurmálsins í höndum yfirvalda

Breiðavík.
Breiðavík.

Geir H. Haarde forsætisráðherra mun í framhaldi af kynningu skýrslu nefndar um Breiðavíkurmálið fjalla um skýrsluna á vettvangi Alþingis á næstunni. Þetta kom fram á kynningarfundi nefndarmanna með fulltrúum fjölmiðla í dag.  Geir sagði við Útvarpið,  að lagt verði fram frumvarp á Alþingi um greiðslu bóta til fórnarlamba ofbeldis.

Fram kom á fundinum að nefndin leggi til að yfirvöld taki afstöðu til þess hvort greiða eigi fyrrum vistmönnum heimilisins skaðabætur, þrátt fyrir að lagaleg skaðabótaskylda sé fyrnd. Verði það ákveðið þurfi einnig að ákveða hvernig að því skuli staðið, hvort sett verði lög sem nái til allra þeirra einstaklinga sem hlut eiga að máli eða hvort fjallað verði um einstök mál fyrir dómstólum.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nefndarinnar voru 158 einstaklingar vistaðir á Breiðavík á þeim tíma sem heimilið var starfandi sem vistheimili fyrir börn og ungmenni í merkingu barnaverndarlaga  á árunum 1952-1979. Þar af eru 33 látnir. 

Einnig kemur fram í skýrslu nefndarinnar að það sé í höndum yfirvalda að ákveða framhald geðheilbrigðisþjónustu við umrædda einstaklinga og það hvort nefndinni verði falið, með nýjum embættisbréfi að kanna fleiri þætti málsins. Þá er mælt með því að yfirvöld taki ákvörðun um aðgerðir til að tryggja það að Breiðavíkurmálið geti ekki endurtekið sig m.a.  með því að setja skýrar reglur um eftirlit með barnaverndarmálum og samræmingu starfsreglna barnaverndarnefnda. Sérstaklega er einnig mælt með því að menntun rekstraraðila og starfsmanna meðferðarheimila fyrir börn verði efld.

Breiðavíkurskýrslan

mbl.is

Bloggað um fréttina