Hús standa auð við Laugaveg

Laugavegur 4-6.
Laugavegur 4-6. Árvakur/Ómar

„Ég veit að sum hús er verið að tæma til að gera upp, þannig að ef þau standa auð er það ekki vegna þess að þau séu dauð,“ segir Snorri Freyr Hilmarsson, formaður Torfusamtakanna, en DV vakti athygli á því í síðustu viku að mörg hús standa auð við Laugaveg.

„Laugavegur fjögur til sex stendur auður núna af augljósum ástæðum en þar var fólki hent út sem vildi halda áfram starfsemi. Á Hverfisgötu er búið að hreinsa innan úr húsum sem stendur til að rífa og standa auð,“ segir Snorri og bætir við að það séu frekar hús sem verktakar hafa keypt sem eru auð en að fólk vilji ekki vera þar, fólk sem vilji hafa starfsemi í húsunum sé rekið þaðan út.

Á reitnum á horni Laugavegar og Klapparstígs standa nú mörg auð hús, þar á meðal þau sem hýstu Hljómalind og Sirkus. Langur tími getur liðið þar til framkvæmdir hefjast þar en Hanna Birna Kristjánsdóttir sagði í 24 stundum fyrr í mánuðinum að teikningar að því sem til stendur að byggja hefðu enn ekki verið lagðar fyrir skipulagsráð Reykjavíkur. Mánuðir geta liðið frá því teikningar eru lagðar fyrir ráðið þar til framkvæmdir hefjast en þangað til standa húsin tóm.

mbl.is