Staurinn lá óvígur eftir

mynd/Sigrún Alda

Engan sakaði þegar ökumaður strætisvagns missti stjórn á ökutækinu í hálku með þeim afleiðingum að vagninn endaði á ljósastaur á Akureyri í dag. Að sögn lögreglu lá staurinn óvígur eftir áreksturinn, en vagninn skemmdist minniháttar.

Óhappið átti sér stað á Austursíðu við Draupnisgötu um kl. 16:30. Ökumaður strætisvagnsins neyddist til að nauðhemla þegar bifreið, sem ók á undan vagninum, hægði snögglega á sér til að beygja inn Draupnisgötu. Við þetta missti vagnstjórinn stjórn á strætisvagninum með fyrrgreindum afleiðingum.

Ekki tók betra við þegar strætisvagninn ætlaði að bakka til að losa sig frá ljósastaurnum. Á sama augnabliki reyndi annar ökumaður að skjótast fram hjá með þeim afleiðingum að vagninn bakkaði á bifreiðina. Engan sakaði og þá er um minniháttar skemmdir að ræða. 

Fljúgandi hálka er á götum að sögn lögreglu sem hvetur ökumenn til að sýna aðgát í umferðinni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina