2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt 37 ára gamlan karlmann í 2 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára gamalli stúlku, sem var að gæta barna mannsins. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða stúlkunni 750 þúsund krónur í bætur auk 1 milljónar króna í sakarkostnað.

Maðurinn fékk stúlkuna til að gæta sona sinna á kosningakvöldið í maí á síðasta ári en þau bjuggu í sama fjölbýlishúsi. Stúlkan fékk tvær vinkonur til að passa með sér og síðar um kvöldið komu fleiri unglingar í íbúðina. Var áfengi haft um hönd en þegar húsráðandinn kom heim klukkan 6 um morguninn voru tvær stúlkur í íbúðinni. Önnur þeirra fór út í verslun og kom aftur um hálftíma síðar en í millitíðinni höfðu gerst  atburðir, sem leiddu til ákæru í málinu. 

Stúlkan bar að maðurinn hefði káfað á brjóstum hennar og klætt hana úr buxum og nærbuxum og þuklað á henni. Hún hefði verið stjörf af hræðslu og ekki brugðist við fyrr en maðurinn leysti niður um sig og gerði sig líklegan til að hafa við hana samræði. Þá hefði stúlkan ýtt við honum og spurt hvort hann vissi ekki að hún væri aðeins 14 ára, síðan klætt sig í skyndingu og drifið sig á brott.

Maðurinn neitaði alfarið sök. Fjölskipaður dómur lagði hins vegar frásögn stúlkunnar til grundvallar og taldi sannað sannað að maðurinn hefði gerst sekur um þá beinu háttsemi, sem honum var gefin að sök í ákæru. Hann hafi verið úti að skemmta sér, drukkið ótæpilega og komið ölvaður heim að morgni til tveggja sona sinna. Í stað þess að greiða stúlkunni fyrir pössunina þegar í stað, svo að hún kæmist heim, hafi maðurinn beitt yfirburðaaðstöðu gagnvart stúlkunni, þegar hann fékk hana til að setjast í sófa í stofunni, sýndi henni grófa kyn­ferðislega áreitni og hafði við hana þau kynferðismök, sem lýst sé í ákæru.  Segir dómurinn, að því beri  að sakfella manninn fyrir nauðgun.

Ekki var hins vegar talið sannað, að maðurinn hafi vitað að stúlkan var ekki orðin 15 ára þetta gerðist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina