Auður Hauksdóttir sæmd dönskum riddarakrossi

Auður Hauksdóttir
Auður Hauksdóttir

Auður Hauksdóttir forstöðumaður og dósent í dönsku við Háskóla Íslands var í dag  sæmd Dannebrogsorðunni fyrir mikilvægt framlag í þágu dönskukennslu og rannsókna á danskri tungu og menningu. Viðurkenninguna veitir hennar hátign Margrét Þórhildur II Danadrottning. Með störfum sínum hefur Auður stuðlað að auknum skilningi og jákvæðum tengslum milli Íslands og Danmerkur.

Sendiherra Dana á Íslandi Lasse Reimann afhenti orðuna fyrir hönd drottningar. Vigdís Finnbogadóttir fv. forseti Íslands, utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttur, rektor Háskóla Íslands Kristín Ingólfsdóttir ásamt fjölskyldu Auðar, vinum og samstarfsmönnum voru viðstödd athöfnina, að því er segir í tilkynningu. 

„Auður Hauksdóttir hefur um árabil einarðlega lagt dönsku máli og menningu lið með störfum sínum. Hún hefur verið formaður Félags dönskukennara og gegnt fjölda trúnaðarstarfa í þágu dönsku og annarra norrænna mála. Auður hefur unnið mikilvægar rannsóknir á fræðasviði sínu og skrifað kennslubækur í dönsku. Hún stundaði doktorsnám við Kaupmannahafnarháskóla og var fyrst Íslendinga til að ljúka doktorsprófi í dönsku, en hún sérhæfði sig í dönsku sem erlendu máli. Auk kennslu og fræðastarfa hefur Auður stundað þýðingar og miðlað þekkingu um íslenskt samfélag og menningu bæði sem leiðsögumaður fyrir fjölda Dana sem hafa lagt leið sína til Íslands og sem fyrirlesari bæði hérlendis og erlendis.

Auður Hauksdóttir er forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. Hún hefur ásamt Vigdísi Finnbogadóttur fv. forseta Íslands verið í fararbroddi meðal brautryðjenda við uppbyggingu stofnunarinnar, en nú er unnið markvisst að því að koma á alþjóðlegri miðstöð tungumála innan vébanda hennar," samkvæmt tilkynningu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert