Íslenskir uppstopparar sigursælir á heimsmeistaramóti

Vinningslaxinn er fenginn úr Laxá í Aðaldal
Vinningslaxinn er fenginn úr Laxá í Aðaldal Ljósmynd Andreas Kolarik

Íslendingum vegnaði einstaklega vel á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í uppstoppun sem haldið var í Salzburg í Austurríki. Haraldur Ólafsson var annar besti uppstoppari í heimi í flokki fiska í keppni meistara, en hann fékk 90 stig af 100 mögulegum fyrir uppstoppaðan lax úr Laxá í Aðaldal. Árangur hans var besti árangur Norðurlandabúa á mótinu. Brynja Davíðsdóttir hamskeri fékk 84 stig af 100 mögulegum, sem samsvarar annarri einkunn eða öðrum verðlaunum, fyrir uppstoppaðan snjótittling í flokki smáfugla í keppni atvinnumanna.

Að sögn Haraldar var þetta umfangsmesta heimsmeistaramót sem haldið hefur verið í Evrópu, en alls tóku þátt í því um 150 uppstopparar og hamskerar með um 450 gripi. Að vanda var keppt í þremur styrkleikaflokkum, þ.e. flokki byrjenda, atvinnumanna og meistara. „Þetta er minn besti árangur til þessa,“ segir Haraldur, sem áður hefur orðið alþjóðlegur meistari og besti atvinnumaður á mótum í Bandaríkjunum.

Haraldur hefur fengist við uppstoppun í um 13 ár, en hann hefur sérhæft sig í uppstoppun fiska þótt hann segist taka einstaka fugl og ref með. Spurður hver lykillinn sé að góðri uppstoppun svarar Haraldur: „Vinna og aftur vinna, auk gríðarmikillar þolinmæði. Lykillinn að keppnisvinnu er að missa aldrei einbeitinguna,“ segir Haraldur og bendir máli sínu til stuðnings á að það taki þrjár til fjórar vikur að stoppa upp einn fisk og mála. Spurður hvað verði um vinningsfiskinn segist Haraldur ætla að eiga hann fyrst um sinn, en tekur fram að hann muni íhuga að selja hann fái hann nægilega gott tilboð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »