Brjóst á uppboði

Nokkur hundruð brjóst verða boðin upp í Saltfélaginu í Reykjavík næstkomandi föstudag. Óhætt er að segja að þetta verði óvenjulegur viðburður – búist er við að handagangur verði í öskjunni, jafnvel olnbogaskot, framíköll og annað sem tilheyrir líflegu uppboði. Allur ágóði rennur til fjáröflunar UNIFEM um afnám ofbeldis og til styrktar konum og stúlkum í þremur Afríkuríkjum – en svonefnd Fiðrildavika hófst í dag.

Forsagan að uppboðinu er sú að Vatnadansmeyjafélagið Hrafnhildur sat uppi með fjölda heklaðra brjósta eftir leiklistar- og gjörningasýninguna ,,Gyðjan í vélinni" sem sýnd var um borð í gamla varðskipinu Óðni í fyrra. Vatnadansmeyjar vildu láta gott af sér leiða með því að koma brjóstunum í lóg. Hugmyndin um uppboðið fæddist, en fékk ekki líf fyrr en samstarf tókst með þeim og forsvarskonum UNIFEM á Íslandi.

Barmarnir sem Vatnadansmeyjar munu bjóða upp eru í öllum stærðum og gerðum; ungmeyjarbrjóst, aðeins notuð brjóst, stór og lítil brjóst, og sérstaklega má nefna hin sérstæðu þyrlubrjóst í fánalitunum, sem nefnd hafa verið Bessastaðabrjóstin.

Íslendingar geta lagt söfnun UNIFEM lið með ýmsum hætti.

Unnt er að leggja fram fé með því að hringja í: 904 1000 (1.000 kr. framlag) - 904 3000 (3.000 kr. framlag) - 904 5000 (5.000 kr. framlag).

Einnig er tekið á móti frjálsum framlögum á www.unifem.is.

Uppboð brjósta fer fram í Saltfélaginu, föstudaginn 7. mars og hefst kl. 20:00.

mbl.is

Bloggað um fréttina