Furðar sig á afstöðu ráðherra

Bæjarstjórnir Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs samþykktu hvor um sig í gær beiðni Norðuráls um byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík. Í Garðinum voru sex bæjarfulltrúar meðmæltir veitingu byggingarleyfis en einn á móti. Í Reykjanesbæ samþykktu tíu bæjarfulltrúar byggingarleyfi fyrir álverið og einn sat hjá. Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, kvaðst vera ánægður með samþykktir bæjarstjórnanna. En hvað finnst honum um afstöðu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra?

„Mér þykir leitt að hafa aldrei heyrt jákvætt orð eða setningu um þetta verkefni okkar frá núverandi umhverfisráðherra eftir að hún tók við störfum,“ sagði Árni. Hann sagði að lögum og reglum hafi verið fylgt frá því verkefnið hófst fyrir nær fjórum árum. Skipulagsstofnun hafi skilað í áliti sínu jákvæðri niðurstöðu um mat á umhverfisáhrifum væntanlegs álvers í Helguvík. Stofnunin hafi lagt fram ákveðnar ábendingar sem veitt voru rökstudd svör við um leið og byggingarleyfi álversins var samþykkt eftir settum reglum.

Umhverfisráðherra gagnrýnir það að ekki hafi verið beðið niðurstöðu umhverfisráðuneytisins varðandi kæru Landverndar um heildstætt umhverfismat. Árni sagði að kæra Landverndar sneri ekki að jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar um álverið í Helguvík sem sé forsenda veitingar byggingarleyfisins. Hann benti á að verkefnið hafi byrjað árið 2004 og verið unnið að því síðan. Varðandi orkuöflun liggi fyrir samningar Norðuráls við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur um útvegun orku. Geti orkuframleiðendur ekki staðið við þá samninga þá sé það samningsrof. Þá liggi fyrir samningur milli Norðuráls og Landsnets um orkuflutning vegna álvers í Helguvík.

„Þessir þættir liggja allir fyrir þó það séu eðlilega ákveðin framkvæmdaatriði sem verið er að vinna að í samræmi við samningana. Til dæmis hvað varðar línulagnir þá styðja öll sveitarfélögin okkur í að flytja orku á Suðurnesin en þau geta haft mismunandi skoðun á því hvernig línurnar liggja. En þau hafa ítrekað sagt við okkur að það sé fullur vilji til að standa að uppbyggingu á orkuflutningi inn á svæðið,“ sagði Árni.

Útvegun losunarkvóta fyrir gróðurhúsalofttegundir frá álverinu er ekki verkefni sveitarfélaganna, að sögn Árna. „Hins vegar er ljóst að losunarkvótinn er til. Mér skilst að það verði enn einfaldara eftir árið 2012 að útvega losunarkvóta. Það er því ekki rétt að valið standi á milli Helguvíkur eða Bakka við Húsavík og raunar ekki okkar að fjalla um það,“ sagði Árni. Hann minnti á að þegar Norðurál sótti um losunarkvóta í fyrra fyrir álver í Helguvík hafi verið sagt að verkefnið væri ekki komið nægilega langt til að hægt væri að afgreiða umsóknina. Sækja ætti um þegar verkið yrði lengra komið.

„Nú er komið að því næst þegar kvóti verður auglýstur,“ sagði Árni.

Telja sig taka ábyrga afstöðu

Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Garðs, sagði bæjarfulltrúa í Garðinum, sem samþykktu byggingarleyfi til álvers í Helguvík, telja sig vera að taka ábyrga afstöðu og hafa gert það á öllum stigum málsins, annars væru þau ekki að þessu. Hún minnti á að verkefni hafi nú tekið tæp fjögur ár. „Við höfum sannfæringu fyrir því að við séum að gera rétt,“ sagði Oddný.

Bæjarfulltrúarnir í Garði sem samþykktu tillöguna fögnuðu því að áform um álver í Helguvík væru komin á það stig að unnt væri að veita byggingarleyfi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »