Viðræður um Geysissvæðið á lokastigi

Samingaviðræður um kaup ríkisins á þeim hluta Geysissvæðisins sem er í einkaeigu eru á lokastigi. Ríkið á Geysi, Strokk og flesta þekktustu hverina en stærstur hluti svæðisins telst til óskiptrar sameignar sem deilist milli ríkisins og um átta annarra landeigenda. Þegar landið kemst allt í eigu ríkisins má búast við að ráðist verði í framkvæmdir til að verja hverasvæðið og auka öryggi ferðamanna.

Alls er svæðið sem um ræðir um 20 hektarar, þar af á ríkið um sjö hektara.

Það lá fyrir árið 1998 að eigendur þeirra fjögurra jarða sem liggja að Geysi væru tilbúnir að selja ríkinu, næðist samkomulag um verð og að seljendum væri tryggt vatn til húshitunar. Í kjölfarið gekk Geysisnefnd undir forystu Þórðar Ólafssonar, nýskipaðs forstöðumanns Vatnajökulsþjóðgarðs, til viðræðna við landeigendur. Þórður segir að ýmislegt hafi tafið viðræðurnar, m.a. hafi nefndin þurft að leita leiða til að útvega landeigendum heitt vatn í stað þeirra vatnsréttinda sem þeir tapa með sölu á svæðinu en sumar jarðir hafa nýtt heitt yfirborðsvatn af Geysissvæðinu. Rannsóknir hafi sýnt að ef vatnsdæling af svæðinu væri aukin myndi það draga úr gosvirkni þar. Fyrir tveimur árum keypti Orkuveita Reykjavíkur sig inn í hitaveitu svæðisins og þar með var þetta vandamál leyst.

Ósætti milli ríkisins og annarra landeigenda hefur valdið því að á undanförnum árum hefur lítið verið gert til að bæta aðgengi og öryggi á Geysissvæðinu. Fyrir nokkrum árum hugðist ríkið ráðast þar í töluverða stígagerð en hætti við eftir mótmæli eigendanna.

Páll Arnór Pálsson sem er lögmaður eigendanna ásamt Ólafi Björnssyni segir að það hafi fyrst og fremst verið framkoma ríkisins sem hleypti illu blóði í eigendur. Ríkið hafi á þessum tíma hunsað aðra eigendur svæðisins og síðan ætlað að hefja framkvæmdir án samráðs eða samþykkis. Nú hilli loks undir samninga. „Það hefur staðið á ýmsu hjá þeim, blessuðum. Það hefur verið erfitt að fá ríkið til að koma með einhverjar vitibornar tölur,“ segir Páll.

Nú virðist sem það hafi loks tekist og Þórður telur að báðir megi vel við una.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »