Einn játaði samræði við konuna

Fimm karlmönnum sem grunaðir voru um kynferðisbrot gegn rúmlega tvítugri konu um síðustu helgi hefur verið sleppt úr haldi lögreglu. Tveir þeirra hafa þó verið úrskurðaðir í farbann. Konan, sem starfar fyrir ráðgjafarfyrirtæki, kemur aðeins til með að dveljast hér á landi í nokkrar vikur.

Einn mannanna kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 10. mars sl. um að hann skyldi sæta gæsluvarðhaldsvist. Hæstiréttur staðfesti þann úrskurð á miðvikudag og kemur m.a. fram í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að einn mannanna hafi játað að hafa haft samræði við konuna. Það hafi hins vegar verið með samþykki hennar.

Vaknaði á öðrum stað í íbúðinni

Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að konan hafi verið að skemmta sér í miðborginni aðfaranótt sunnudags og orðið viðskila við vini sína. Hún hafi farið að dvalarstað sínum en ekki komist inn þar sem vinur hennar hafi verið með lykilinn. Þá hafi borið að mann sem kvaðst vera kunningi konu sem hún hafði kynnst um kvöldið. Tjáði maðurinn konunni að hún yrði örugg á heimili hans. Konan lét til leiðast.

Þegar þangað var komið dró maðurinn fram dýnu og lagðist konan til svefns í öllum fötum. Eftir það brestur minni konunnar að miklu leyti, en hún man þó óljóst eftir því að maðurinn sem bauð henni heim hafi lagst hjá henni og kysst hana á hálsinn. Hún hafi þá ýtt honum frá sér og sofnað aftur.

Konan vaknaði svo við að annar maður hafði við hana samfarir – þá var hún annars staðar í íbúðinni og nakin að neðan. Við það stökk hún á fætur, klæddi sig og hljóp út úr íbúðinni.

Að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns miðar rannsókn áfram. Búið sé að útiloka að þrír mannanna hafi komið að meintu broti gegn konunni. Ekkert er hins vegar hægt að segja til um hvort henni hafi verið byrluð ólyfjan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert