Íslendingar styðja ekki SÞ-umsókn Taívan

Hæsti skýjakljúfur í heimi, Taipei 101, í höfuðborg Taívans.
Hæsti skýjakljúfur í heimi, Taipei 101, í höfuðborg Taívans. Reuters

Kínverska fréttastofan Xinhua hefur eftir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra, að Íslendingar geti ekki stutt þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til stendur að halda á Taívan um hvort sækja eigi um aðild að Sameinuðu þjóðunum í nafni landsins. 

„Við teljum að áformuð þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að Sameinuðu þjóðunum í nafni Taívan væri mistök og getum ekki stutt hana," hefur Xinhua eftir Ingibjörgu. „Slík atkvæðagreiðsla eykur hættu á spennu og óstöðugleika á svæðinu."

Ingibjörg bætti við, að sögn Xinhua, að Ísland, sem tók upp stjórnmálasamskipti við Kína árið 1971, muni áfram styðja stefnuna um eitt Kína. Þá lýsti hún yfir ánægju með þróun samskipta landanna tveggja og sagði að miklir möguleikar fælust í frekari samvinnu Íslands og Kína.  

mbl.is