Komust ekki til Tíbet

Tvö hundruð manna hópur íslenskra kennara, sem höfðu áform um að fara til Tíbets, er nú staddur í Kína, en komast ekki til landsins vegna pólitísks ástands, sem hefur staðið yfir undanfarna daga í Tíbet.  Herlög voru sett í Tíbet á föstudaginn og hafa yfirvöld lokað landinu og engum ferðamönnum er hleypt inn í Tíbet. 

Jón Ingvar Kjaran, kennari við Verslunarskóla Íslands, er í hópnum og segir í samtali við mbl.is að mikil spenna sé í Kína vegna ástandsins og að fólk sé á varðbergi.  Að sögn Jóns fór hópurinn út í tveim hollum og kom annar hópurinn til Kína á fimmtudaginn og hinn hópurinn í gær, en þegar fyrsti hópurinn kemur eru mótmælaaðgerðir gegn kínverskum stjórnvöldum að byrja og síðan þá hefur ástandið í Tíbet stigmagnast og farið versnandi. 

Að sögn Jóns fékk hópurinn litlar upplýsingar um ástandið til að byrja með og segir hann Kínverja fara í kringum það eins kettir í kringum heitan graut.   Kínversk ferðaskrifstofa, sem hefur skipulagt ferðina fyrir hópinn hefur komið mjög hreint fram, að sögn Jóns, og sagt hópnum að ástandið væri mjög slæmt þó svo að nákvæmari upplýsingar hafi þau ekki fengið frá ferðaskrifstofunni. 

„Við þurftum að fara aðrar leiðir til þess að finna út úr því hvað væri að gerast, og einu fréttirnar sem við höfum séð um gang mála í Tíbet eru frá fréttavef RÚV og Morgunblaðsins.  Erlendir fréttavefir eins og BBC eða CNN eru lokaðir, og sjáum við bara svartan skjá ef við reynum að fara á þær síður.  Við erum með tölvu með okkur og höfum komist í nettengingu en síurnar virðast ekki loka fyrir íslensku síðurnar," segir Jón.

Að sögn Jóns hefur þeim ferðamönnum sem eru nú staddir í Tíbet verið ráðlagt að fara ekki út af hótelum sínum þar sem ástandið á götum Lhasa, höfuðborgar Tíbets,  hefur verið skelfilegt.  „Mér skilst að kínversk stjórnvöld séu að reyna að flytja ferðamenn frá Tíbet, en þetta ástand mun sennilega vara næstu 2-3 vikurnar eða jafnvel lengur," segir Jón.

Áform hópsins voru m.a að heimsækja skóla í Tíbet, en kennarar frá Verslunarskóla Íslands, Menntaskólanum við Sund, Háskóla Íslands og fleiri skólum, eru í hópnum.  Jón segir að allir séu óhultir og að hópurinn hafi ákveðið að fara í siglingu meðfram Yangtze fljóti, í stað þess að fara til Tíbets.

Frá mótmælum tíbetskra munka í Amdo Labrang, í Tíbet í …
Frá mótmælum tíbetskra munka í Amdo Labrang, í Tíbet í gær. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina