SUF vill kosningar um hvort hefja eigi ESB viðræður í sumar

Reuters

Samband ungra framsóknarmanna telur að það þjóni hagsmunum Íslands að hefja vinnu við samningsmarkmið með aðild að Evrópusambandinu í huga. Telur sambandið að kjósa eigi um það samhliða forsetakosningum í sumar hvort hefja eigi aðildarviðræður eður ei.

„Á undanförnum árum hefur Ísland tekið aukinn þátt í samstarfi Evrópuríkja sérstaklega innan vébanda evrópska efnahagssvæðisins.  Hefur þátttaka í því samstarfi orðið landi og þjóð til heilla. 

Samband ungra Framsóknarmanna telur þó að samstarfið um evrópska efnahagssvæðið hafi ekki þróast nægilega og rík þörf sé á að endurskoða stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu en fyrir liggur að Ísland tekur nú þegar mikið af löggjöf ESB lítið breytta inn í íslenskan rétt án þess að hafa nokkra aðkomu að mótun hennar.

Því telur SUF að það þjóni hagsmunum Íslands að hefja vinnu við samningsmarkmið með aðild að ESB í huga. Huga þarf sérstaklega að hagsmunum Íslendinga í landbúnaðar-og sjávarútvegsmálum.
Það sem þó skiptir mestu máli er að löngu er orðið tímabært að almenningur fái að segja sína skoðun á málinu. 

SUF telur að ekki sé eftir neinu að bíða og að efna beri til kosninga samhliða næstu Forsetakosningum í júní næst komandi þar sem kjósendur taki ákvörðun um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið eður ei. 
 
Niðurstöður slíkra viðræðna ætti síðan að bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar.  Viðunandi samningar eru forsenda fyrir inngöngu inn í ESB," segir í ályktun frá stjórn SUF. 

mbl.is

Bloggað um fréttina