Vextir og væntingar

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Margir spyrja hvers vegna Seðlabanki Íslands heldur stýrivöxtum háum en þeir eru nú 13,75% á sama tíma og t.d. bandaríski seðlabankinn hefur verið að lækka þá.

Þórarinn G. Pétursson, staðgengill aðalhagfræðings og forstöðumaður rannsóknar- og spádeildar hagfræðisviðs Seðlabanka Íslands, segir muninn á peningastefnu þessara tveggja seðlabanka aðallega skýrast af mismunandi trúverðugleika peningastefnunnar í löndunum. Þá sé ástand peningamála á Íslandi og í Bandaríkjunum nú ólíkt. Hins vegar megi líkja ástandinu sem nú ríkir hér við það sem var í Bandaríkjunum í upphafi 9. áratugar 20. aldar. Þá var viðvarandi verðbólga í Bandaríkjunum upp á 10-15%. Bandaríski seðlabankinn greip þá til sömu ráða og Seðlabanki Íslands hefur beitt um hríð. Stýrivextir voru hækkaðir og urðu hæstir 19% árið 1981 og héldust mjög háir það ár. Á árunum 1979-90 voru stýrivextir í Bandaríkjunum að meðaltali um 10% og raunstýrivextir, þ.e. vextir mínus verðbólga, um 9% eða líkt og þeir hafa orðið hæstir hér.

Samkvæmt kenningum hagfræðinnar eru verðbólguvæntingar helsti drifkraftur verðbólgu. Með verðbólguvæntingum er átt við væntingar almennings og aðila á fjármálamarkaði um þróun verðbólgu. Þórarinn tók sem dæmi verðbólguvæntingar launþega sem hyggst óska eftir kauphækkun. Kaupkröfuna mótar hann m.a. með tilliti til þeirra væntinga sem hann hefur um þróun verðbólgu í framtíðinni. Samkvæmt fenginni reynslu fylgja verðbólguvæntingar raunverulegri verðbólguþróun. Þórarinn sagði leiðina til að ná niður verðbólgunni þá að slá á verðbólguvæntingar. Um leið og Seðlabankanum tækist að ná tökum á verðbólguvæntingum hefði hann fengið það sem þarf til að ná verðbólgunni niður. Leiðin til þess eru háir vextir og að knýja fram aðlögun í hagkerfinu. „Með því sýnir Seðlabankinn að honum sé full alvara,“ sagði Þórarinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert