Flótti úr leikskóla

Krakkar á leikskóla. Myndin tengist ekki fréttinni.
Krakkar á leikskóla. Myndin tengist ekki fréttinni. mbl.is/Sverrir

Betur fór en á horfðist þegar 5 ára drengur var að príla yfir grindverk við leikskóla á höfuðborgarsvæðinu á dögunum. Hinn ungi klifurkappi kom nefnilega ekki standandi niður heldur datt á gangstéttina en fallið var nokkuð.

Lögreglumaður við almennt eftirlit sá til drengsins og kom strax til aðstoðar. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bar klifurkappinn sig vel og virtist ekki hafa orðið meint af, en honum var sennilega meira brugðið við að sjá fulltrúa réttvísinnar á staðnum, sem hafði sett aðvörunarljós í gang á lögreglubílnum, en slíkt vekur jafnan eftirtekt hjá yngstu kynslóðinni.

Að sögn lögreglu voru tveir leikfélagar piltsins hinum megin grindverksins, þ.e. á leikskólalóðinni og í nokkru skjóli af trjágróðri sem þarna er, og fylgdust með atburðarásinni. „Sjálfsagt hafa þeir ætlað að fylgja foringja sínum á vit ævintýranna en líklegt má telja að hér hafi verið um að ræða misheppnaðan flótta úr leikskólanum."

Lögregla segir að hætt sé við að drengirnir verði að bíða betri tíma til að skoða heiminn því farið var vel yfir málið á leikskólanum. „Niðurstaðan verður væntanlega sú að þremenningunum verður hér eftir ekki hleypt út á undan öðrum börnum en svo var víst raunin í þessu tilviki. Þess má geta að ungi klifurkappinn hefur nokkurt orð á sér fyrir að príla en eftir þessa reynslu má búast við að hann hafi lært sína lexíu."

mbl.is

Bloggað um fréttina