Erfiðar ákvarðanir framundan

Ingibjörg Sólrún segir óásættanlegt að 20 - 30% hækkun á …
Ingibjörg Sólrún segir óásættanlegt að 20 - 30% hækkun á matvælaverði væri óásættanleg. mbl.is/G. Rúnar

Í ræðu sinni á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sagði formaðurinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir að ríkisstjórnin hafi verið starfsöm og að unnið hafi verið að því að auka jöfnuð í íslensku samfélagi en vinna þyrfti bug á verðbólguvandanum og lækka tolla á innflutt matvæli.

Hremmingar í fjármálaheiminum

Um hremmingarnar í fjármálaheiminum sagði hún: „ Spákaupmenn í fjarlægum heimshornum hagnast á hremmingum krónunnar, sem er minnsti sjálfstæði gjaldmiðill í heimi, og það vefst hvorki fyrir þeim siðferðilega né fjárhagslega að taka stöðu gegn henni ef þeir sjá í því hagnaðarvon. Í fjármálaheiminum er enginn annars bróðir í leik og það er ekki spurt um heiður eða sóma heldur auð og áhrif."

Til að ráða bót á þessum vanda sagði hún að mikilvægt væri að senda skýr skilaboð til spákaupmanna um að áhlaupi þeirra verði hrundið og að efnahagskerfið verði varið með ráðum og dáð.

„ Það kann að fela í sér umtalsverða lántöku af hálfu ríkissjóðs til að efla gjaldeyrisforða Seðlabankans – jafnvel þó lánamarkaðir séu óhagstæðir – en það kann líka að fela í sér að stýrivextir þurfi að hækka enn meira en þegar er orðið.," sagði Ingibjörg Sólrún.

Ekki hægt að sætta sig við yfirlýsingar kaupmanna


Ingibjörg Sólrún sagði að leggja þyrfti kapp á að halda aftur af verðbólgunni. „ Þarna þurfa allir að leggjast á eitt og það er engan veginn hægt að sætta sig við yfirlýsingar kaupmanna um 20-30% hækkun á matvælaverði eru algjörlega óásættanleg tilraun til að fría sig undan ábyrgum rekstri á samkeppnismarkaði. Við sættum okkur ekki við að menn skapi sér lag til að hækka verð umfram nauðsyn og mun viðskiptaráðherra hitta forsvarsmenn ASÍ og Neytendasamtakanna til að ræða vöktun verðlags af hálfu þessara aðila á þriðjudaginn."

Erfiðar ákvarðanir framundan 

 „Framundan er tími erfiðra ákvarðana en til þess erum við í ríkisstjórn að taka þær ákvarðanir sem duga, þó undan þeim kunni að svíða um sinn." sagði Ingibjörg Sólrún í ræðu sinni.

Á að kasta krónunni? 

„Í ljós er komið að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi leita leiða til að skipa megi um mynt hér á landi. Vinir okkar í Vinstri grænum ræða um sameiginlega norræna krónu, Framsóknarmenn og Frjálslyndir um svissneska franka og margir í Sjálfstæðisflokknum hafa horft til einhliða upptöku Evru.

Kóngur vill sigla en byr hlýtur að ráða. Er ekki öllum löngu orðið ljóst að engin þessara leiða er raunhæf? Og er ekki jafnljóst að í þessari leit allra stjórnmálaflokka að annarri leið en krónu felst vitnisburður um hinn erfiða en óumflýjanlega veruleika: Krónan er of lítil fyrir Ísland þ.e.a.s. ef Ísland ætlar að taka þátt í hnattvæddu hagkerfi heimsins," sagði Ingibjörg Sólrún.

Finnur til með borginni

Að lokum sagði Ingibjörg Sólrún að hún teldi að klækjastjórnmál  væru mikill skaðvaldur í íslenskum stjórnmálum. „Sjaldan hefur það opinberast okkur með jafn átakanlegum hætti og núna í Reykjavík. Borgin líður fyrir hrossakaup og óheilindi stjórnmálamanna. Ég finn til með borginni minni og finnst þyngra en tárum taki að horfa upp á niðurlægingu hennar sem hvarvetna blasir við.

Klækjastjórnmál eru frumstæð og öllum til óþurftar. Þau eiga ekkert erindi við upplýst fólk á Íslandi í upphafi 21. aldar. Nú er ekki tími fyrir klækjastjórnmál, refsskap og útúrsnúninga heldur hreinskiptni og heilindi."

mbl.is