Geir: Tvennskonar vandi í efnahagsmálum

Geir H. Haarde, forsætisráðherra.
Geir H. Haarde, forsætisráðherra. mbl.is/Ómar

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að vandinn í efnahagsmálum væri tvennskonar: alþjóðleg lausafjárkreppa og að upp hefði komið óvæntur skortur á gjaldeyri, sem hefði haft það í för með sér að krónan hefði fallið. 

Geir sagði, að fyrir hefði legið að eftir að stórframkvæmdum lauk á Austurlandi myndi gengi krónunnar lækka. Það hefði hins vegar komið á óvart hversu skyndileg þessi gengisbreyting var og því hefði verið fleygt að óeðlilegir hlutir væru þar á ferð; Geir sagðist ekki geta fullyrt neitt um það en ánægjulegt væri, að á þessum fyrsta viðskiptadegi eftir ársfund Seðlabankans hafi krónan styrkst og innlendur hlutabréfamarkaður sömuleiðis. Það benti til þess, að botninum sé náð.

Verið var að ræða um ástandið í efnahagsmálum að ósk Guðna Ágústssonar, formanns Framsóknarflokksins, sem sagði að íslenska þjóðarskútan velktist í ólgusjó og ölduróti og spyrna þyrfti við fótum og forða þjóðarvoða.

Guðni sagði, að framsóknarmenn sæju grænt land handan erfiðleikanna og með samstilltu átaki væru forsendur fyrir að koma jafnvægi á í efnahagsmálum. Mikilvægt væri að ráðast í samstillt átak til að slökkva verðbólgubálið.

Geir sagði, að gengislækkunin hefði því miður þau áhrif að verð á innfluttum varningi hækkaði. Gangi gengislækkunin til baka að einhverju marki væri nauðsynlegt að skora á alla þá, sem hafa vald yfir verðlagi á Íslandi, að halda aftur af sér og láta ekki verðlag hér á landi hækka samstundis á meðan ekki væri séð fyrir endann á þessari þróun. Ekki mætti þó gleyma því að innflutningsverðið sjálft, einkum á hrávöru, væri að hækka, vegna þess hversu veikur bandaríkjadalur hefur verið.

Ef gengisbreytingin hins vegar verður varanleg yrðu Íslendingar að sætta sig við að það kæmi einhver kúfur í verðlagsmálum, sem vonandi gengi niður þegar líða færi á árið.  

Geir sagði, að það sem væri að gerast á alþjóðamörkuðum væri afleiðing af óábyrgri stefnu ýmissa banka  og fjármálafyrirtækja, sem voru að leika sér að því að búa til skuldabréfavafninga, vefja inn í það allskyns lánum og lána síðan aðilum, sem vita mátti að gætu ekki staðið í skilum. Vegna þess hve alþjóðahagkerfið væri orðið opið og alþjóðavætt hefðu slíkir gjörningar umsvifalaust áhrif annarstaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert