37 auð hús í miðborginni

Alls eru 37 hús auð í miðborg Reykjavíkur samkvæmt samantekt skipulags- og byggingasviðs borgarinnar sem lögð var fram á fundi skipulagsráðs í fyrradag. Þar kemur fram að fyrirhugað sé að rífa 18 þessara húsa og að gera eigi upp tíu. Níu hús eru sögð standa auð vegna eigendabreytinga. 17 húsanna sem tilgreind eru í samantektinni eru í eigu þriggja félaga: Samson Properties (5 hús), ÁF-húsa ehf. (5 hús) og Festa ehf. (7 hús).

16 húsanna eru við helstu verslunargötu Íslendinga, Laugaveginn. Mörg þeirra hýstu enn rekstur um síðustu jól. Á þeim kafla Laugavegarins sem tilheyrir póstnúmeri 101 eru 143 heimilisföng. Því standa rúm 11% húsa þar auð. 12 húsanna stendur annaðhvort til að rífa eða endurgera.

Samkvæmt korti sem fylgir greinargerð slökkviliðsstjóra um auðar byggingar á svæði 101, sem var kynnt í borgarráði í gær, hefur hústökufólk hreiðrað um sig í alls 5 húsum við götuna; á Laugavegi 33, 33a, 33b, 35 og Vatnsstíg 4. Þau eru öll í eigu ÁF-húsa ehf.

Húsakaup borgarinnar

Tvö húsanna við Laugaveg, númer 4 og 6, eru í eigu borgarinnar. Þau voru keypt 25. janúar síðastliðinn á 580 milljónir. Kostnaður við enduruppbyggingu þeirra er áætlaður 389 milljónir. Því er samanlagður kostnaður Reykjavíkur vegna þeirra áætlaður um 969 milljónir. Húsin tvö eru samtals 390,8 fermetrar. Hver fermetri var því keyptur á 1,5 milljónir og uppgerð munu húsin hafa kostað borgina um 2,5 milljónir á fermetra.

Kaupin voru harðlega gagnrýnd úr ýmsum áttum. Gagnrýnisraddirnar telja að borgin hafi sett fordæmi fyrir því að kaupa niðurníddar byggingar á uppsprengdu verði og fyrir vikið muni eigendur annarra grotnandi húsa bíða eftir sambærilegri lausn.

12 húsanna sem skipulagsráð telur að standi auð eru við Hverfisgötu. Í úttekt slökkviliðsins kemur auk þess fram að hústökufólk hafi verið í tveimur húsum við götuna í mars. Annað þeirra er Hverfisgata 92a, sem er í eigu Samson Properties, en Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson eru eigendur þess.

Kolsvört skýrsla

24 stundir sögðu í gær frá greinargerð sem slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, Jón Viðar Matthíasson, lét vinna að beiðni borgarstjóra og borgarráðs og minnst hefur verið á hér að ofan. Hún var unnin í mars og í henni kemur fram að 57 hús í miðborginni standi auð að öllu leyti eða að hluta. Skýrslan var kynnt í borgarráði í gær ásamt myndum af öllum þeim húsum sem talin voru auð.

Í greinargerðinni segir orðrétt; „skoðun þessi hefur leitt í ljós að mikið er af yfirgefnum byggingum og flestar þeirra standa opnar öllum, þannig að bæði útigangsmenn, fíkniefnaneytendur og aðrir hafa sótt inn í þær.“

Mannlegur úrgangur

Síðar stendur að „notaðar sprautunálar [hafi] fundist á þessum stöðum með þeim hættum sem þeim fylgir. Byggingarnar eru nær alltaf rafmagnslausar, hvorki vatn, né hiti. Útigangsmenn hafa gripið til ýmissa ráða til að hita sitt umhverfi, t.d. með gasi og þeirri hættu sem því fylgir. Umgengni er að öllu jöfnu mjög slæm, sorp, mannlegur úrgangur, rúður hafa verið brotnar og glerbrot bæði innan sem utan bygginga.“ Jafnframt hafi nágrannar þessara húsa miklar áhyggjur af ástandinu, sérstaklega ef kveikt verði í einhverju húsanna þar sem flest húsin á þessum slóðum séu úr timbri og því mikill eldsmatur. Nágrannar telja eigendur þessara bygginga vísvitandi láta þær drabbast niður til að lækka verð nærliggjandi bygginga.
Í hnotskurn
Í skýrslu skipulags- og byggingarsviðs er sagt að 37 hús standi auð í miðborginni. Slökkviliðsstjórinn telur að alls 57 hús séu auð að öllu leyti eða að hluta. Hústökufólk hefur hreiðrað um sig í sumum húsanna.
mbl.is

Bloggað um fréttina