Tollfríðindi skili sér í vasa almennings

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ársfundi Útflutningsráðs í dag.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á ársfundi Útflutningsráðs í dag. mbl.is/Frikki

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, ítrekaði í ræðu á ársfundi Útflutningsráðs í dag, að hún teldi ekki réttlætanlegt að halda uppi tollmúrum á pasta, kjúklingum og svínakjöti til þess að halda uppi verði á lambakjöti, sem njóti hárrar tollverndar, framleiðslustyrkja, búi við útflutningsskyldu og sé markaðssett á erlendri grundu fyrir ríkissfé.

„Við getum heldur ekki leyft okkur að semja við Evrópusambandið um svokallaða núllkvóta á innflutningi til landsins en boðið þá síðan út fyrir stórfé og einkavætt þannig í raun tollákvörðunina, neytendum og viðsemjendum okkar til mikillar armæðu. Ég mun beita mér fyrir því að tollfríðindi af þessu tagi skili sér beint í vasa almennings," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar fyrir rúmri viku, að hún teldi tímabært að skoða verulega tollalækkun á fugla- og svínakjöt. Á fundinum í dag sagðist Ingibjörg Sólrún hafa fengið ákaflega jákvæð viðbrögð við þessu úr ólíklegustu áttum, m.a. frá Heimdalli, félags ungra Sjálfstæðismanna. Neikvæðar raddir hefðu heyrst frá bændaforystunni og sumir segðu að ekki sé á vanda bænda bætandi.

„Vissulega glíma bændur við margvíslega sigurvagna. En ég held ekki að aukinn innflutningur á hvítu kjöti muni ráða úrslitum fyrir íslenskan landbúnað. Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og þeirri gæðavöru sem íslenskir bændur framleiða.  Íslenska lambakjötið er það besta og heilnæmasta í heimi og Íslendingar myndu ekki snúa við því bakinu þó samkeppni myndi aukast. Sömu sögu er að segja um mjólkurafurðirnar. Ég hef miklu meiri trú á íslenskum bændum og matvælaframleiðendum en svo að þeir verði undir í samkeppninni. Vöruþróun mun eflast, vöruúrval aukast og inniviðirnir styrkjast. Ég er þess fullviss að sömu lögmál gilda í landbúnaði og í öðrum atvinnugreinum.

Vandi íslenska bænda eru eftirlegukindurnar sem verða að lokum þrælar þess staðnaða kerfis sem þeir hafa sjálfir tekið þátt í að byggja upp og verið með kjafti og klóm," sagði Ingibjörg Sólrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert