Telja líklegt að kjör almennings myndu batna með ESB-aðild

Í nýrri skýrslu, sem Evrópufræðasetrið við Háskólann við Bifröst hefur unnið fyrir Neytendasamtökin, kemur fram að margt bendi til þess að kjör almennings myndu batna við aðild Íslands að Evrópusambandinu og evrunni, einkum vegna verðlækkunar á landbúnaðarvörum og lægri vaxta á húsnæðislánum.

Telur stofnunin að matvælaverð geti lækkað um allt að 25% með inngöngu Íslands í ESB. Þá megi gera ráð fyrir að með aðild að myntbandalagi ESB  lækki vextir á íbúðarlánum töluvert. Erfitt er hins vegar að segja til um hve mikil sú lækkun yrði en hvert prósentustig hafi mikla þýðingu fyrir heimilin.   

Stofnunin segir, að margir óvissuþættir séu í málinu en með aðild að ESB yrði Ísland um leið aðili að tollabandalagi ESB. Því myndu þeir tollar sem enn eru milli Íslands og ESB landanna falla niður og munar þar mestu um landbúnaðarvörur. Þetta myndi skila sér í lægra verði á þessum vörum. Tollar gagnvart ríkjum utan ESB gætu í sumum tilvikum hækkað.

Endurskipuleggja þyrfti íslenskan landbúnað á sama hátt og Svíar og Finnar gerðu áður en þessi lönd gengu í ESB. Draga þyrfti úr stuðningi við íslenskan landbúnað en nú er sá stuðningur með því hæsta sem gerist. 

Heimasíða Neytendasamtakanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert