Harðir á strippinu

„Þetta er kvöld sem löng hefð er fyrir hjá Herði og alltaf þetta atriði í lokin en eftir þessa uppákomu í fyrra þá ákvað félagið að halda þetta ekki í ár. Hins vegar voru þarna karlmenn sem tóku sig saman og héldu svona styrktarkvöld í þessum stíl. Það var einkasamkvæmi,“ segir Guðjón Magnússon, formaður Hestamannafélagsins Harðar, um karlakvöld sem haldið var í félagsheimili félagsins um helgina. Meðal skemmtiatriða var kona sem fækkaði fötum.

„Það eru skiptar skoðanir um þessi kvöld, þetta er búið að vera svona í áratugi og alltaf endað á þessum dagskrárlið, stuttu strippi,“ segir Guðjón en hann setti inn auglýsingu fyrir karlakvöld Harðar á vef félagsins 26. mars síðastliðinn. Henni var seinna breytt þannig að nafn félagsins var tekið út.

Rúmt ár er síðan félagið varð fyrir töluverðri gagnrýni vegna nektardans á karlakvöldi. Í kjölfar þess skrifaði Stefán Konráðsson, þáverandi framkvæmdastjóri Íþróttasambands Íslands, pistil á heimasíðu sambandsins. Þar segir meðal annars: „Getur það verið, að tilgangurinn með herrakvöldunum sé að 2-400 karlar fái kynörvun við það að horfa á eina eða tvær stúlkur dansa naktar?“

Stefán segir að skilaboðin sem send séu með því séu í raun kvenfyrirlitning. Þá segist hann ekki geta látið uppákomur sem þessa viðgangast enda standi hreyfingin fyrir forvarnir, heilbrigði og góðan félagsanda. „Nektardansar og allt sem þeim fylgir á ekki heima á opinberum samkomum í okkar hreyfingu.“

Líney Rut Halldórsdóttir, núverandi framkvæmdastjóri, tekur undir orð Stefáns og segir stefnu ÍSÍ ekki hafa breyst í þessum málum.

mbl.is

Bloggað um fréttina