Segir hringalandahátt setja orkuútrásina í hættu

Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segir það mjög alvarlegt, ef hringlandahátturinn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sé farinn að verða  Íslendingum til skammar á alþjóðavettvangi. En hjá því verði ekki komist dragi Reykjavik Energy Invest sig út úr verkefninu í Djíbútí vegna duttlunga borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu, sem Sigrún Elsa hefur sent frá sér. Yfirlýsingin er eftirfarandi:

„Síðan Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðismanna tók við sem stjórnarformaður REI hafa fjölmargar viljayfirlýsingar verið undirritaðar víðsvegar um heiminn.

Skömmu áður en hann fór í för sína til Djibuti skrifaði hann undir viljayfirlýsingu við Eþíópíu. Í Djibuti var svo skrifað undir tvíþætta samninga annarsvegar um að ráðast í hagkvæmniathugun, þar sem boðin verður út borun á allt að fimm tilraunaborholum til að kanna efnasamsetningu og kraft svæðisins. Síðan var skrifað undir drög að samningi (head of terms) um virkjun í kjölfarið, reynist niðurstaða tilraunaborunnar jákvæð.

Í sömu ferð var skrifað undir viljayfirlýsingu (letter of intent) í Jemen og nú er forstjóri REI í Alaska að kanna möguleika í virkjunarframkvæmdum þar.

Yfirlýsingar stjórnarformanns REI eftir heimkomu sína, um að Orkuveitan sé að hægja á útrás sinni og dragi sig útúr verkefnum, ganga því þvert á hans eigin störf og athafnir.

Auk þess sem hugleiðingar hans um einkavæðingu og hugsanlega sölu á REI ganga þvert á stefnu borgaryfirvalda sem sameiginleg niðurstaða náðist um í Stýrihópi borgarráðs fyrir nokkrum vikum síðan.

Það er mjög alvarlegt ef hringlandahátturinn í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins er farinn að verða okkur Íslendingum til skammar á alþjóðavettvangi. En hjá því verður ekki komist dragi REI sig út úr verkefninu í Djibuti vegna duttlunga borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Nú þegar er búið er að vekja miklar væntingar heimamanna í Djibuti og blanda alþjóðlegum bönkum í málið. Kjartan Magnússon verður að standa við gefnar yfirlýsingar og læra að standa í lappirnar gagnvart upphlaupum í röðum sjálfstæðismanna í borginni ætli hann sér önnur eftirmæli í pólitík en að hafa klúðrað íslensku orkuútrásinni. "

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert