Sýknaður af bótakröfu vegna misheppnaðs golfhöggs

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað karlmann af kröfu um að viðurkennt yrði að hann væri bótaskyldur vegna slyss, sem varð í golfi en golfkúla, sem maðurinn sló á golfvelli Kjalar í Mosfellsbæ lenti í hægra auga annars manns. Sá sem varð fyrir kúlunni missti nánast sjónina á auganu. 

Slysið varð í nóvember 2002. Sá sem fyrir kúlunni varð var að spila golf og gekk að vetrarflöt á þriðju braut vallarins þegar hinn maðurinn sló upphafshögg af 4. teig, en þessar brautir liggja að hluta til samsíða. Um 60-80 metrar voru á milli mannanna. Höggið mistókst og kúlan tók sveig yfir til vinstri og lenti í hægra auga mannsins. Rifa kom á augað við höggið og augntóftarbein brotnaði. 

Sá sem sló kúluna sagði að hann hefði vitað af hinum manninum áður en höggið reið af en talið að hann og félagar hans væru það langt í burtu að óhætt væri að slá.

Dómurinn, sem var fjölskipaður, taldi að ekki væri hægt að meta kylfingnum það til sakar að hafa slegið höggið, sem hefði misheppnast hrapallega. Til bótaábyrgðar gæti ekki stofnast á þeim grunni.

Vísaði dómurinn einnig m.a. í reglur um golf í ritinu Golf með skynsemi eykur ánægjuna, sem Golfsamband Íslands hefur gefið út, þar á meðal þá reglu, að þeir sem lengra séu komnir í leiknum, þ.e. séu að leika braut með hærra númeri, eigi forgangsrétt. 

mbl.is

Bloggað um fréttina