Fjármagnskostnaður vegur þungt

Vestmannayjaferjan eins og fyrirhugað er að hún muni líta út.
Vestmannayjaferjan eins og fyrirhugað er að hún muni líta út. Ljósmynd/Harald M. Valderhaug

Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður hjá Siglingastofnun, segir að stofnunin hafi vitað af því fyrirfram að tveir aðilar myndu ekki skila inn tilboði í kaup og rekstur nýrrar Vestmannaeyjaferju en fjórum var boðið að skila inn tilboðum. Þá sé ekki óvanalegt að tilboð séu yfir kostnaðaráætlun. 

Megintilboð Vestmannaeyjabæjar og Vinnslustöðvarinnar var 16,3 milljarðar króna. Þá fylgdu tilboðinu fimm frávikstilboð og var lægsta frávikstilboðið upp á um tólf milljarða króna. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 10,2 milljarða króna.

„Greinilegt er á tilboði Vinnslustöðvarinnar og Vestmannaeyjabæjar að fjármagnskostnaður vegur þungt í útreikningum þeirra og því greinilegt að lánsfjárhremmingar hér heima og erlendis hafa hér áhrif. Má sem dæmi nefna að í einu frávikstilboðinu er gert ráð fyrir að bjóðandi fái einn milljarð greiddan við afhendingu ferjunnar og lækkar þá heildartilboðið í um fjórtán milljarða. Annað frávikstilboð gerir ráð fyrir tveggja milljarða greiðslu við afhendingu og um 12 milljarða heildargreiðslu. Undirstrikar þetta hinn mikla fjármagnskostnað sem ég nefndi áður,“ segir Sigurður Áss. 

Sigurður segir ekki ljóst hvert framhaldið verði en almennt sé meginreglan sú að taka ekki tilboðum sem séu meira en 10% yfir kostnaðaráætlun. Hins vegar sé mögulegt að hægt sé að ná verðinu niður í samningaviðræðum við Vestmannaeyingana, eða að málið verði leyst með öðrum hætti, t.d. með því að bjóða verkið út aftur. „Hins vegar er líklegt að nýtt útboð verði með öðrum hætti þar sem tímaskortur fer að hrjá okkur þegar fram líða stundir. Staðan sem upp er komin er óheppileg fyrir verkefnið en hún er hvorki óvænt né óviðráðanleg.“ 

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir að farið hafi verið yfir tilboðin í Vestmannaeyjaferjuna á fundi hjá Ríkiskaupum í gær þar sem tilboðin voru opnuð. Þar hafi verið mættir fulltrúar bjóðenda og verksala, þ.e. Ríkiskaupa, Siglingamálastofnunar og heimamanna. Fulltrúar aðila hafi ákveðið að funda aftur í dag, föstudag, til þess að freista þess að ná saman.

„Ég er með tvo fætur við þetta borð, annars vegar sem bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og þar með fulltrúi langstærsta hagsmunaaðilans, og hins vegar fulltrúi bjóðenda. Við erum að taka þátt í þessu vegna þess að krafa íbúa í Vestmannaeyjum hefur verið sú að við freistum þess að fá aukið forræði yfir samgöngunum. Og þetta er viðleitni til þess. Hvað það varðar er ég afar ánægður með að vera nú við samningaborðið. Það reynir á lipurð beggja aðila en ég er sannfærður um að samgöngur til Vestmannaeyja muni koma til með að stóreflast. Það er lykilatriðið í þessu og það væri bara ánægjanlegur aukabónus ef við Vestmannaeyingar myndum sjálfir hafa töglin og hagldirnar.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert