Forstjóri OR undrast ákvörðun Samkeppniseftirlits vegna HS

„Þessi úrskurður gengur mun lengra en ég hefði átt von á. Fyrir fram höfðum við gert ráð fyrir að sá hlutur sem við áttum fyrir í HS og keyptur var fyrir ári mundi standa,“ segir Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur (OR), en Samkeppniseftirlitið komst í gær að þeirri niðurstöðu að OR væri óheimilt að eiga meira en 3% eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja (HS) og skal OR gera breytingar á eignarhaldi sínu í HS fyrir 1. október nk.

Að sögn Hjörleifs hafa forsvarsmenn OR ekki ákveðið hvernig bregðast skuli við ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. Tekur hann fram að búið hafi verið að skipuleggja stjórnarfund OR í dag og segist gera ráð fyrir að málið verði rætt þar. Bendir hann á að hlutaðeigandi aðilar hafi heimildir til að bera ákvörðun Samkeppniseftirlitsins undir áfrýjunarnefnd samkeppnismála auk þess sem dómstólaleiðin sé fær kjósi menn hana. Aðspurður segir hann engan kaupanda að eignarhlut OR í HS í spilunum eins og sé. Spurður hvort einhver takmörk séu sett á það hverjum OR megi selja hlut sinn svarar Hjörleifur því neitandi.

Í ljósi ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins er sala Hafnarfjarðarbæjar á ríflega 15% hlut sínum í HS til OR í uppnámi, en samningsaðilar eru ósammála um hvort OR beri að kaupa hlut Hafnarfjarðar í HS og síðan selja hann aftur eða hvort ekkert verði af sölu hlutarins í ljósi ákvörðunar eftirlitsins.

Að mati Hjörleifs má ljóst vera að ekki getur orðið af kaupunum og bendir hann máli sínu til stuðnings á að í hluthafasamkomulagi frá 11. júlí 2007 hafi verið tiltekið að kæmu fram takmarkanir af hálfu samkeppnisyfirvalda myndu aðilar samkomulagsins leita leiða varðandi eignarhald á HS, s.s. að fá nýja eignaraðila að félaginu.

Greiði OR ekki fyrir hlutinn gæti málið endað fyrir dómi

Þessu er Stefán Geir Þórisson, hrl. og lögmaður Hafnarfjarðarbæjar í málefnum HS, ósammála. „OR þarf að greiða fyrir hlutinn í HS sem um var samið. Síðan er það bara þeirra vandamál að losa sig við þennan hlut,“ segir Stefán. Bendir hann á að hluturinn, sem nemur rúmum 7,6 milljörðum króna, hafi gjaldfallið 10. mars sl. og hafi því þegar safnað um 200 milljónum króna í dráttarvöxtum. Að sögn Stefáns var í samningi samningsaðila frá 2. júlí 2007, þess efnis að Hafnarfjarðarbær gæti tekið ákvörðun um að selja hlut sinn í HS til OR innan sex mánaða, ekki neinn fyrirvari af hálfu OR um samþykki samkeppnisyfirvalda. Spurður hvað gerist sitji OR fast við sinn keip segist Stefán munu ráðleggja Hafnarfjarðarbæ að stefna OR til greiðslu þessarar fjárhæðar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert