Vilja ekki innflutning á fersku kjöti

Vinstri grænir
Vinstri grænir

Félög Vinstri grænna í Skagafirði og Húnavatnssýslum skora á Alþingi að stöðva frumvarp ríkisstjórnarinnar sem galopnar á innflutning á fersku kjöti og kjötvörum til landsins. 

Í tilkynningu frá Vinstrihreyfingunni Grænt framboð kemur fram að með frumvarpinu er ekki einungis vegið að einstökum atvinnugreinum heldur afkomu heilu landshlutanna ásamt því að sjúkdómavörnum og öryggi neytenda er teflt í tvísýnu. 

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, sem jafnframt fór með ráðuneyti landbúnaðarmála gaf vilyrði fyrir óheftum innflutningi á hráu kjöti og kjötvörum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar hyggst nú fullkomna það verk með lagasetningu. Sem fyrr er um algert sinnuleysi að ræða gagnvart séríslenskum hagsmunum og möguleikum okkar að fá tillit til þeirra tekið í samningum og við lagasetningu. 

Sagt er í tilkynningunni að enginn landshluti á eins mikið undir landbúnaði og kjötvinnslu eins og Skagafjörður og Húnavatnssýslur. Með frumvarpinu er ráðist gegn afkomu heils landshluta. Því er skorað ríkisstjórnina að draga frumvarpið til baka og taka þessi málefni til vandaðri meðferðar.

mbl.is