Stofnandi Saving Iceland ákærður fyrir eignaspjöll

Mánudaginn 21. apríl 2008 kemur stofnandi Saving Iceland, Ólafur Páll Sigurðsson fyrir héraðsdóm Austurlands ákærður fyrir eignaspjöll, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Ákæran er til komin vegna atburða í mótmælabúðunum við Snæfell í júlílok 2006.  

Vitni sögðu að fjórhjóladrifsjeppa lögreglunnar hafi viljandi verið ekið á Ólaf Pál á hraða sem gat haft lífshættu í för með sér. Einnig segja vitnin að ökumaðurinn hafi reynt að aka á aðra mótmælendur við mörg önnur tækifæri þetta sumar.  

Ólafur Páll lagði fram formlega kæru sem ríkissaksóknari vísaði frá hálfu ári síðar eftir að hafa rætt við lögreglumenn.  Nú er þess krafist að Ólafur greiði bætur fyrir skemmdir á bílnum. Þegar atvikið átti sér stað var enn í gildi skilorðsdómur yfir Ólafi Páli fyrir að sletta skyri, ásamt tveim öðrum mótmælendum, yfir gesti á alþjóðlegri álráðstefnu í Reykjavík í júní 2005.

Verði Ólafur fundinn sekur um að hafa skemmt lögreglubílinn gæti fangelsisvist beðið hans.

Mótmælendurnir saka lögregluna um að vilja hefna sín á Saving Iceland.“Þessi blanda af persónulegri illgirni og fullkomnum virðingarskorti fyrir lýðræðislegum rétti til mótmæla er dæmigerð fyrir íslenskulögregluna í samskiptum við mótmælendur Saving Iceland,” segir talsmaður Saving Iceland. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert