Sturla: Ekki á okkar ábyrgð

Frá árásinni við Kirkjusand í dag
Frá árásinni við Kirkjusand í dag mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Sturla Jónsson, talsmaður atvinnubílstjóra, segir að maðurinn sem réðst á lögregluþjón við Kirkjusand í dag ekki á ábyrgð atvinnubílstjóra þrátt fyrir að hann hafi tekið þátt í aðgerðum þeirra. Bróðir árásarmannsins er ósáttur við að bílstjórarnir þykist ekki kannast við einn talsmanna sinna nú.

Maðurinn sem réðst á lögreglumann á geymslusvæði við Kirkjusand síðdegis í dag þar sem flutningabifreiðar, sem haldlagðar voru af lögreglu í gær þegar bílstjórar lokuðu fyrir umferð um Suðurlandsveg, voru geymdar, hefur meðal annars talað við Fréttavef Morgunblaðsins undir nafni sem talsmaður atvinnubílstjóra en hann er flutningabílstjóri. 

Sturla segir að árásin hafi komið bílstjórum sem voru að sækja bifreiðar sínar algjörlega í opna skjöldu og ekki á ábyrgð atvinnubílstjóra. Þeir fordæmi því árásina. 

Guðmundur Fylkisson, bróðir árásarmannsins, er ósáttur við að atvinnubílstjórar segist ekki kannast við bílstjórann þar sem hann sé einn þriggja nafngreindra talsmanna hópsins í fjölmiðlum. „Eða eins og Sturla sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 þá var um vegfarenda að ræða," segir Guðmundur í samtali við mbl.is 

Guðmundur segir að það hljóti allir að fordæma árásina en það sé góðum málstað til mikils skaða hvernig atvinnubílstjórarnir afgreiða þennan hluta atburðarrásarinnar undanfarið.

„Maður velur sér ekki ættingja en maður velur sér talsmenn og vini," segir Guðmundur sem er mjög ósáttur við viðbrögð talsmanna atvinnubílstjóra í fjölmiðlum í dag.

Að sögn Sturlu er verið að afhenda bílstjórum bifreiðarnar nú við Kirkjusand en hann muni ekki fá bifreið sína afhenta þar sem hún sé það mikið skemmd. Það mál sé nú í höndum lögreglunnar og fjármögnunarfyrirtækisins sem á bifreiðina. 
mbl.is

Bloggað um fréttina